Innlent

Umboðsmaður á leik

Embætti umboðsmanns alþingis ákveður brátt hvernig brugðist verður við skriflegum ábendingum þingflokksformanna stjórnarandstöðunnar um hæfi Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra til að taka þátt í sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum til S-hópsins svonefnda. Í bréfi þeirra frá því í lok júlí er óskað eftir því að umboðsmaður Alþingis hafi frumkvæði að því að taka málið til athugunar, en lögum samvæmt er hlutverk hans að hafa eftirlit með opinberri stjórnsýslu og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Mál geta borist embættinu með tvennum hætti. Það getur tekið mál til meðferðar í kjölfar skriflegrar kvörtunar en einnig getur embættið að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Máli sínu til stuðnings leitaði stjórnarandstaðan eftir áliti tveggja lögfræðinga sem komust að þeirri niðurstöðu að úrlausn um hæfi stjórnvalda við sölu á Búnaðarbankanum félli ótvírætt að hlutverki umboðsmanns. Auk þess er vitnað til Ríkisendurskoðunar sem í minnisblaði frá 13. júní telur lögfræðileg álitaefni um hæfi og vanhæfi stjórnvalda standa utan við verksvið sitt.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×