Sport

Barrichello kvaddi Monza

Brasilíski ökuþórinn Rubens Barrichello kvaddi Monza brautina dapur í bragði eftir keppnina þar um síðustu helgi, því það verður síðasta keppni hans á heimavelli Ferrari sem ökumaður liðsins. Hann segist þó ekki koma til með að gráta það að hætta að keppa með Michael Schumacher. "Það var skrítið að kveðja brautina og mér þótti það á suman hátt erfitt, en á suman hátt markar það nýtt upphaf fyrir mig," sagði brasilíumaðurinn knái. Hann segir að viðskilnaðurinn við Michael Schumacher verði sér ekki sérlega erfiður, en segist muni sakna flestra samstarfsmanna sinna. "Við Michael vorum ekki sérstaklega nánir. Við snæddum nokkrum sinnum kvöldverð með konum okkar, en ég átti nánara samband við marga af vélvirkjunum hjá Ferrari og vissi allt um þeirra hagi. Michael hélt sínum málum alltaf meira fyrir sig," sagði Barrichello, sem á næsta tímabili mun aka fyrir lið BAR.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×