Sport

Á ein von um gullpottinn

Rússneska stúlkan Tatjana Lebedeva sigraði í þrístökki á gullmótinu í frjálsum íþróttum í Zürich í gærkvöldi. Lebedeva, sem keppti ekki á heimsmeistaramótinu í Finnlandi fyrr í þessum mánuði vegna meiðsla, stökk 14 metra og 94 sentímetra. Hún er eini íþróttamaðurinn sem enn þá á von um að vinna eina milljón dollara en það er upphæðin sem þeir íþróttmenn skipta með sér takist þeim að vinna öll sex gullmót keppnistíðarinnar. Aðeins Lebedeva og Christine Arron 100 metra hlaupari frá Frakklandi höfðu unnið sínar greinar þar til í gærkvöldi, en þetta var fjórða gullmót ársins. Christine Arron varð að gera sér fjórða sætið að góðu en Veronica Campbell frá Jamaíku sigraði á 10,85 sekúndum. Ausandi rigning var í Zürich í gærkvöldi. Tvítug bandarísk stúlka, Sanya Richards, sigraði í 400 metra hlaupi á 48,92 sekúndum. Richards sigraði heims- og Ólympíumeistarann Tonique Williams-Darling. Engin tvítug stúlka hefur áður hlaupið 400 metrana á skemmri tíma en 49 sekúndum. Bandaríkjamaðurinn Justin Gatlin sigraði í 100 metra hlaupi á 10,14 sekúndum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×