Erlent

Menezes skotinn vegna mistaka

Mistök leiddu til þess að breskir lögreglumenn skutu til bana brasilískan mann sem þeir töldu hryðjuverkamann, í Lundúnum fyrir nokkru. Lögreglumennirnir skutu Jean Charles de Menezes átta sinnum á neðanjarðarlestarstöð í Lundúnum þann tuttugasta og annan júlí síðastliðinn, daginn eftir seinni hrinu árása í borginni. Upphaflega var sagt að Menezes hefði verið klæddur í þykka úlpu, sem þótti dularfullt í sumarhitanum og vakti grunsemdir um að hann hefði falið sprengju innan klæða. Ennfremur var sagt að hann hefði hlaupið undan lögreglumönnum sem reyndu að stöðva hann, stokkið yfir hlið á lestarstöðinni og skotist inn í lest. Nú er komin fram önnur útgáfa atburðarásarinnar, en fréttastöðun ITV komst yfir skýrslu lögreglunnar um atburðina. Hún er byggð á frásögn sjónarvotta og myndum úr eftirlitsmyndavélum. Í skýrslunni segir að Menezes hafi ekki verið í þykkri og dularfullri úlpu, að hann hafi gengið í rólegheitum gegnum lestarstöðina og stoppað til að ná sér þar í dagblað. Hann steig um borð í næstu lest og þar stöðvaði öryggisvörður för hans. Því næst var hann skotinn til bana. Í skýrslunni er sagt að hugsanlega hafi aðgerðin klúðrast þegar einn lögreglumannanna hafi brugðið sér á salernið. Einmitt þá hafi Menezes komið út úr húsinu sem fylgst var með. Þetta þykir áfall fyrir Ian Blair, lögreglustjóra Lundúna, og hefur þegar verið krafist rannsóknar á atburðunum og frásögn lögreglunnar í kjölfarið


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×