Erlent

Aukin öryggisgæsla skilar litlu

Stóraukin öryggisgæsla og hert eftirlit á Bretlandi virðist litlu skila: Fréttamaður SKY-fréttastöðvarinnar komst frá Lundúnum til Parísar óáreittur þótt hann hafi framvísað vegabréfi starfsfélaga síns allan tímann. Hryðjuverkamaðurinn Osman Hussain komst vandræðalaust frá Lundúnum til Parísar með Eurostar-lest um Ermasundsgöngin skömmu eftir misheppnuðu árásirnar fyrir hálfum mánuði. Þetta olli yfirvöldum hugarangri og varð til þess að eftirlit með ferðalöngum var aukið enn á ný en það var fyrst hert eftir árásirnar sjöunda júlí síðastliðinn. Fréttamaður SKY ákvað að kanna hversu gott eftirlitið væri og keypti sér miða og ferðaðist til Parísar. Það gekk eins og í sögu, þó að hann væri ekki með sitt eigið vegabréf heldur passa starfsfélaga síns, og þrátt fyrir að fara nokkrum sinnum í gegnum eftirlit og framvísa þar vegabréfinu. Enginn sá neitt athugavert við að fréttamaðurinn liti allt öðruvísi út í vegabréfinu en í raun og að fæðingardagurinn þar gæfi til kynna að hann væri í raun mun eldri en hann lítur út fyrir að vera. Uppljóstranir SKY eru ákaflega vandræðalegar fyrir bresk yfirvöld en talsmaður innanríkisráðuneytisins vildi ekkert tjá sig um málið. Hjá Eurostar var einungis sagt að fyrirtækið bæri enga ábyrgð á landamæraeftirliti.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×