Erlent

Handtökur í Bretlandi

Breska lögreglan handtók í morgun einn fjórmenninganna sem gerðu misheppnaða árás á London síðasta fimmtudag. Sex aðrir hafa verið handteknir í tengslum við árásirnar síðan í gærkvöld. Yassin Hassan Omar var handtekinn eldsnemma í morgun, þegar lögreglan í Birmingham réðist inn í íbúðarhús þar sem hann hélt til. Lögreglumönnum tókst að skjóta hann með rafstuði og hann var svo handtekinn í kjölfarið. Hann var þegar í stað fluttur til London, þar sem lögreglan hefur yfirheyrt hann í allan dag. Omar reyndi ásamt þrem öðrum mönnum að endurtaka fyrstu sprengjuárásirnar á London fyrir þrem vikum, þar sem meira en fimmtíu létust. Árásirnar mistókust hins vegar og fjórmenningarnir komust lífs af og hefur þeirra verið ákaft leitað undanfarna viku. Við leit í íbúð Ómars fann lögreglan grunsamlegan böggul í sem talið er að hafi innihaldið sprengiefni. Svæðið í kringum húsið var þegar rýmt og íbúum hundrað húsa í nágrenninu var gert að halda sig annars staðar á meðan sprengjusérfræðingar rannsökuðu böggulinn. Það er óhætt að segja að breska lögreglan sé með alla anga úti eftir árásirnar í síðustu viku. Þrír aðrir menn voru handteknir í Birmingham í morgun, en enginn þeirra tók beinan þátt í árásunum, þó að talið sé að þeir tengist þeim á einn eða annan hátt. Seint í gærkvöldi voru svo tveir menn handteknir í lest sem var á leiðinni á Kings Kross lestarstöðina í London. Þeir eru líka grunaðir um að tengjast árásunum. Síðdegis í dag handtók svo lögregla mann á flugvellinum í Luton, sem þótti svipa til eins árásarmannanna, en honum var sleppt og leyft að halda áfram för sinni, eftir að í ljós kom að hann var blásaklaus. Mikil bjartsýni ríkir innan bresku lögreglunnar eftir handtökuna í dag, sem vonast er til að varpi ljósi á hvort árásirnar tvær á London tengist og eins hver skipulagði þær. Þá verður einnig reynt að fá Hassan Omar til að leiða lögreglunna á spor hinna mannanna þriggja, sem framkvæmdu árásirnar með honum. Haft er eftir heimildarmönnum innan Skotland Yard í dag að dómurinn yfir Omar verði mildaður ef hann reynist samstarfsfús.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×