Erlent

Tengsl milli hryðjuverka og Íraks

Kokhraustur Tony Blair blæs á kannanir sem sýna að almenningur telur tengsl á milli hryðjuverka í borginni og stríðsins í Írak. Rannsókn á árásunum heldur áfram og virðist lögreglan á hælum tilræðismannanna. Meðal þess sem lögreglan segist hafa fundið í dag er sprengiefni á stað sem tengist hryðjuverkamönnunum. Bifreið var einnig grandskoðuð. Fimm hafa verið handteknir í tengslum við árásirnar en enginn tilræðismannanna. Í fjölbýlishúsi einu í Norður-London er talið að einn hryðjuverkamannanna hafi búið. Einn nágranni hans virðist einnig skoðanabróðir. Hann segist vona að mennirnir fari til paradísar því þegar allt komi til alls hafi þeir fórnað lífinu sem píslarvottar. „Allir múslimar verða að taka þátt í hinu heilaga stríði, hvort sem það er í orði, verki eða með fjárstuðningi. Það er skylda sérhvers múslíma að hjálpa öðrum múslímum,“ sagði nágranninn við fjölmiðla í dag. Kannanir í Bretlandi sýna að meirihluti almennings telur samhengi á milli hryðjuverkanna í London og stríðsins í Írak. Tony Blair gefur lítið fyrir þær kannanir og harðneitar nokkrum tengslum. Í ljósi þess að vinsældir hans hafa stóraukist frá hryðjuverkunum getur hann líkast til leyft sér að vera kokhraustur. Á blaðamannafundi í dag sagði hann sama hvaða afsökun eða réttlætingar „þessir“ menn noti, ekki megi gefa eftir einn þumlung, hvort sem er í Bretlandi, Írak, Afganistan, Ísrael eða Palestínu. „11. september vakti mig. Vitið þið hvað ég held að vandamáið sé? Mikill hluti heimsins vaknaði smástund, velti sér svo á hina hliðina og fór aftur að sofa,“ sagði Blair. „Við leysum ekki þetta vandamál sem á sér svo djúpar rætur fyrr en við berjumst gegn þessu fólki á öllum stigum. Og ekki bara gegn aðferðum þeirra heldur einnig hugmyndum.“


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×