Erlent

Kennsl borin á tvo tilræðismenn

Vitað er hverjir tveir hryðjuverkamannanna eru sem gerðu tilraun til árásar í London í síðustu viku. Lundúnalögreglan handtók í dag tvo menn en tilræðismannanna er leitað og óttast að þeir leggi á ráðin um fleiri tilræði. Lögreglan leggur allt í sölurnar að hafa uppi á tilræðismönnunum og því er sem mestum upplýsingum komið til almennings í von um að ábendingar berist. Annar mannanna, hinn 24 ára gamli Yasin Hassan Omar, er sagður hafa reynt að sprengja sprengju í Victoriu-lestinni á milli neðanjarðarstöðvanna við Oxford Circus og Warren Street. Skömmu síðar sást hann án bakpokans við Warren Street stöðina. Maðurinn sem reyndi að koma sprengingunni af stað í strætisvagninum heitr Muktar Said Ibrahim. Einnig er vitað að sprengjurnar voru í plastílátum sem kaupa má í næstu matvöruverslun. Önnur ástæða þessa kapps er að dreifa athyglinni frá því þegar lögreglumenn skutu Brasilíumann á þrítugsaldri til bana eftir eltingarleik. Í dag var greint frá því að maðurinn hefði verið skotinn átta sinnum í höfuðið. Hann reyndist ekkert hafa með hryðjuverk að gera og krefjast ættingjar hans skaðabóta. Lögreglan og yfirvöld standa hins vegar við þá stefnu að skjóta grunsamlegt fólk til bana þar sem helsærður hryðjuverkamaður getur kveikt á sprengju. Að sama skapi er viðurkennt að þetta geti leitt til þess að fleiri óbreyttir borgarar verði drepnir. Lögreglan réðst í morgun inn í íbúð í norðurhluta Lundúna en enginn var handtekinn. Þrír menn eru í haldi lögreglunnar vegna málsins en enginn þeirra mun vera tilræðismaður.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×