Erlent

Lundúnalögreglan biðst afsökunar

Lögreglustjórinn í Lundúnum, Ian Blair, baðst í gær opinberlega afsökunar á því að lögregla skyldi hafa skotið til bana brasilískan rafvirkja, sem ekki tengdist hryðjuverkaárásunum í borginni á nokkurn hátt. Blair varði engu að síður þá stefnu lögreglunnar að hika ekki við að skjóta menn ef ástæða væri til að gruna þá um að bera á sér sprengju. Lundúnalögreglan tilkynnti í gærkvöld að hún hefði handtekið þriðja manninn í tengslum við rannsókn misheppnuðu tilræðanna síðasta fimmtudag. Upplýsti hún að maðurinn hefði verið handtekinn í nafni hryðjuverkavarnalaga, í sama hverfi í suðurhluta borgarinnar og Brasilíumaðurinn bjó í. Blair lögreglustjóri sagði enn fremur á blaðamannafundi að sprengiefninu sem notað var við hin misheppnuðu sprengjutilræði á fimmtudaginn svipaði mjög til þess sem notað var við hin mannskæðu tilræði tveimur vikum fyrr. Verið væri að rannsaka vísbendingar um viss tengsl milli tilræðismannanna 7. og 21. júlí. Engar sannanir væru þó enn fyrir tengslum milli tilræðanna, að sögn lögreglustjórans. Hann sagði rannsóknarina nú helst beinast að mönnunum fjórum sem eftirlitsmyndavélamyndir voru birtar af á föstudag. Blair skoraði á breska múslimasamfélagið að leggja lögreglunni lið í rannsókninni. Allar ábendingar væru líka vel þegnar, hefði einhver séð einhvern fjórmenningana sem lýst hefur verið eftir. Loft var ennþá lævi blandið í borginni í gær og lögregla beitti sprengiefni til að eyða grunsamlegum pakka sem fannst í garði í norðausturhluta Lundúna. Að sögn talsmanna lögreglunnar lék grunur á að pakkinn kynni að hafa tengst hlutum sem notaðir voru í misheppnuðu tilræðunum á fimmtudaginn. Nánari upplýsingar var ekki að fá að svo stöddu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×