Erlent

Lögregla skýtur grunaðan mann

Lögregla í Lundúnum handtók í gærkvöld mann í Stockwell í suðurhluta borgarinnar í tengslum við rannsóknina á hinum misheppnuðu sprengjutilræðum í jarðlestum og strætisvagni á fimmtudag. Óljóst var af fyrstu fréttum af handtökunni hvort hún tengdist atviki sem varð á Stockwell-jarðlestarstöðinni í gærmorgun, en þá eltu óeinkennisklæddir lögreglumenn mann í gegnum stöðina, sneru hann niður inni í lestarvagni og skutu til bana fyrir augunum á agndofa vegfarendum. Lögreglan staðfesti hins vegar að aðgerðirnar væru í beinum tengslum við rannsóknina á sprengjutilræðunum í almenningssamgöngukerfi borgarinnar. Vitni sögðu manninn, sem hljóp upp í lest á Stockwell-stöðinni í suðurhluta Lundúna rétt eftir klukkan níu í gærmorgun að staðartíma, hafa litið út fyrir að vera af suður-asískum uppruna. Eitt vitnið sagðist hafa séð víra standa út úr mittisbeltinu sem maðurinn bar. Lögreglumennirnir sem króuðu hann af skutu hann tvisvar í höfuðið og þrisvar í brjóstið, að sögn vitna. Sir Ian Blair, lögreglustjóri Lundúna, sagði aðgerðina "í beinum tengslum við hryðjuverkavarnaaðgerðina sem stendur yfir og fer vaxandi". Hann sagðist verða að taka skýrt fram að öll dauðsföll bæri að harma, en maðurinn hefði neitað að hlýða fyrirmælum lögreglu. Blair lét fjölmiðlum enn fremur í té myndir úr eftirlitsmyndavélum af fjórum mönnum sem taldir eru hafa staðið að hinum misheppnuðu sprengjutilræðum sem framin voru í þremur jarðlestum og einum strætisvagni í fyrradag. Talsmenn lögregluyfirvalda greindu annars frá því í gær að sprengjurnar sem notaðar voru í tilræðum fimmtudagsins hefðu verið gerðar úr heimatilbúnu sprengiefni, en þær hefðu aðeins sprungið að hluta. Blair lögreglustjóri sagði tilræðunum "svipa til" tilræðanna 7. júlí, sem kostuðu 52 menn lífið auk sjálfsmorðssprengjumannanna fjögurra.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×