Erlent

Skjóta til að drepa

Ótti og spenna ríkir í Lundúnum, eftir að grunaður hryðjuverkamaður var skotinn til bana á lestarstöð í dag. Einn maður hefur verið handtekinn og birtar hafa verið myndir af fjórum öðrum mönnum sem grunaðir eru um sprengjutilræðin í borginni í gær. Lögreglan hefur skipanir um að skjóta til að drepa ef talið er að menn séu með sprengiefni á sér. Sjónarvottar segja að skelfing hafi gripið um sig á Stockwell járnbrautarstöðinni, í Lundúnum, þegar vopnaðir lögreglumenn birtust skyndilega á harðahlaupum, á eftir manni sem var í þykkum vetrarjakka þrátt fyrir sumarhitann. Maðurinn stökk yfir grindverk og girðingar, og sinnti ekki  hrópum lögreglumannanna um að stoppa. Manninum tókst að komast inn á Stockwell brautarstöðina, en þar náðu lögreglumennirnir honum og skutu hann til bana. Sjónarvottar segja að hann hafi verið skotinn fimm eða sex skotum. Reglur bresku lögreglunar mæla fyrir um að skotvopnum sé aðeins beitt í ítrustu neyð, og þá reynt að gera menn óvíga. Um grunaða sprengjumorðingja gildir öðru máli, þá á að skjóta til þess að drepa. Ken Livingstone, borgarstjóri Lundúna, sagði að stundum væri lögreglan neydd til þess að drepa, ef ógnin væri mikil. Hann sagði að ef verið væri að fást við einstklinga sem líta út fyrir að vera sjálfsmorðsárásarmenn og sá aðili er með meðvitund og getur hugsanlega sprengt sprengjuna þá eru yfirgnæfandi líkur á því að hann verði skotinn með það í huga að drepa hann. Lögreglan hefur engar upplýsingar gefið um þann sem var skotinn, nema að hann tengist sprengjutilræðunum í Lundúnum, í gær. Þau voru nánast endurtekning á tilræðunum fyrir hálfum mánuði, nema hvað í gær sprungu sprengjurnar ekki. Síðdegis í dag handtók lögreglan mann í grennd við Stockwell lestarstöðina og hún hefur birt myndir af fjórum mönnum, til viðbótar,  sem grunaðir eru um þáttöku í sprengjutilræðunum, í gær. Gerðar hafa verið húsleitir á nokkrum stöðum, í Lundúnum, í dag, en lögreglan hefur ekki upplýst hvort þær hafi skilað einhverjum árangri.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×