Erlent

Tilraun til sjálfsmorðsárása?

Naglasprengja var sprengd við eða í neðanjarðarlest við Warren Street lestarstöðina í London, samkvæmt óstaðfestum fregnum. Nú hafa borist fregnir af einhvers konar atvikum í almenningssamgöngum í borginni og segja fréttamenn Sky-fréttastöðvarinnar að ýmislegt bendi til þess að reynt hafi verið að gera fjórar sjálfsmorðsárásir. Ferðir þriggja leiða neðanjarðarlesta hafa verið stöðvaðar. Nú rétt fyrir eitt var staðfest að einn er slasaður í Warren Street en hvorki er ljóst hver það er né hversu alvarleg meiðslin kunna að vera. Talsmenn Scotland Yard segja að málið sé enn sem komið er ekki talið stórmál. Sjúkrahús eru þó í viðbragðsstöðum. Götum í nánd við Warren Street neðanjarðarlestarstöðina í London hefur verið lokað og lögregla segir fólki að yfirgefa svæðið. Sömu sögu er að segja í nánd við Oval-stöðina og þar hafa byggingar í grennd einnig verið rýmdar, og svo Shephard's Bush. BBC segir reyk sjáanlegan við tvær stöðvanna. Að auki hefur borist óstaðfest frétt um sprengju í strætisvagni við Hackney, en af myndum úr öryggismyndavélum að dæma er vagninn ekki mikið laskaður. Enginn er þó á ferð í nánd við vagninn og hefur lögregla girt hann af, sem er túlkað sem svo að óttast sé að sprengja kunni enn að vera um borð. Talsmaður strætisvagnafyrirtækisins segir rúðurnar í vagninum hafa þeyst út. Sjónarvottur greinir frá því að sprenging hafi orðið í bakpoka hjá manni í einum neðanjarðarlestarvagninum, en hún er sögð hafa orðið minniháttar. Maðurinn með bakpokann á að hafa blótað hraustlega í kjölfarið. Misvísandi fregnir berast af því atviki, ekki er ljóst hvort að það var naglasprengjan sem fregnir berast af eða mishepnuð sjálfsmorðsárás. Hjá Scotland Yard segja sérfræðingar að hugsanlega hafi hvellhettur sprungið og hugsanlega hafi árásirnar mistekist. Staðfest hefur verið að reykur barst úr einum lestarvagni en frekari staðfestingar hafa ekki fengist á því hvað er á seyði. Farþegar í lestunum munu hins vegar hafa troðist út, skelfingu lostnir, en aðeins er liðinn hálfur mánuður frá því að fimmtíu og þrír voru drepnir í samhæfðum hryðjuverkaárásum á þrjár neðanjarðarlestir og strætisvagn í London. Fjármálamarkaðir brugðust þegar í stað illa við fregnunum af atburðunum í London.  


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×