Erlent

Ekki talinn tengjast Al-Qaida

Egypski efnafræðingurinn sem handtekinn var í Kaíró í Egyptalandi í gær er ekki talinn tengjast Al-Qaida hryðjuverkasamtökunum að sögn egypskra dagblaða. Tala látinna eftir sprengingarnar í London er nú komin í fimmtíu og fimm.  „Greindur, hlédrægur og viðkunnalegur maður.“ Þannig er manninum lýst sem grunaður er að hafa átt stóran þátt í skipulagningu sprenginganna í London í síðustu viku. Maðurinn starfaði við eina virtustu rannsóknarstofnun í Egyptalandi. Hann kom úr lágstéttarfjölskyldu sem hafði eytt miklu fé til að hann gæti stundað nám erlendis. Hann kenndi efnafræði við háskólann í Leeds þar til viku fyrir árásirnar að hann sneri aftur heim til Egyptalands. Nágrannar mannsins í Leeds trúa einfaldlega ekki á sekt mannsins. Þeir segja alla hans athygli hafa beinst að náminu og rannsóknum, annað hafi hann ekki haft tíma fyrir. Fjöldi þeirra sem látist hafa vegna árásanna í Lundúnum þann 7. júlí síðastliðinn er kominn upp í 55 eftir að enn eitt fórnarlamb árásanna lést á sjúkrahúsi í nótt af sárum sínum. Ekki var gefið upp hver hinna fjögurra sprenginga varð viðkomandi að bana, né heldur aðrar upplýsingar um hinn látna.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×