Erlent

Breska lögreglan með húsleitir

MYND/AP
Sérsveit bresku lögreglunnar gerði húsleit á fimm heimilum í borginni Leeds á Englandi í morgun í tengslum við leitina að Al-Qaida hryðjuverkamönnunum sem bera ábyrgð á sprengjutilræðunum í Lundúnum í síðustu viku. Fimmtíu og tveir létu lífið í árásunum og um 700 særðust, þar af margir alvarlega. Breska lögreglan segir aðgerðirnar mikilvægar en í Leeds er að finna eitt stærsta samfélag múslima á Bretlandseyjum. Samkvæmt Reuters-fréttastofunni eru aðgerðir lögreglunnar í morgun fyrstu skipulögðu aðgerðirnar frá því hryðjuverkaárásirnar voru framdar á neðanjarðarlestakerfi og strætisvagna Lundúnaborgar. Almenningur í Bretlandi hefur gagnrýnt yfirvöld fyrir að bregðast seint við árásunum og fyrir seinagang við að bera kennsl á lík fórnarlamba árásanna. Töluverð ólga er í landinu þótt lífið í Lundúnum sé að komast í fyrra horf. Frá því á fimmtudag hefur verið reynt að kveikja í fjórum moskum í Bretlandi og hefur gætt vaxandi spennu í garð múslima. Lögreglan hefur fengið fjölmargar tilkynningar um tilvik þar sem múslimar hafa verið áreittir á götum úti og bílar þeirra, fyrirtæki og heimili skemmd. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur heitið múslimum í landinu aðstoð sinni til að koma í veg fyrir þessar árásir. Gordon Brown fjármálaráðherra ætlar að hvetja fjármálaráðherra annarra aðildarríkja Evrópusambandsins til að taka höndum saman við að gera sjóði hryðjuverkamanna upptæka, hvar sem þeir finnast í bönkum aðildarríkjanna. Hann hittir fjármálaráðherra hinna ríkjanna í Brussel í dag.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×