Erlent

London í dag

Snemma í morgun voru þrír karlmenn handteknir á Heathrow-flugvelli vegna gruns um tengsl við hryðjuverk. Brian Paddick, aðstoðaryfirlögreluþjónn segir að fólkið sé enn í haldi. Hann segir einnig að það sé beinlínis óviðeigandi og hreinar getgátur að tengja handtökurnar við árásirnar á London síðasliðinn miðvikudag. Hann er ekki tilbúinn til að gefa meiri upplýsingar á þessu stigi málsins. Enn hefur björgunarmönnum ekki tekist að bjarga öllum líkunum úr neðanjarðarlestargöngunum, og er í það minnsta þrjátíu saknað. Kenningunum um hverjir voru að verki í London fjölgar. Marokkómaður sem leitað var í gær liggur ekki lengur undir grun, en annarra er þó leitað, meðal annars Mustafa Setmariam Nasar, Sýrlending undir fimmtugt, sem sagður er hafa komið á fót hryðjuverkahópum á Bretlandi. Hann mun einnig hafa verið í sambandi við þá sem gerðu árásirnar í Madríd og er sagður samstarfsmaður Abu Musabs al-Zarqawis. Önnur kenning gengur út á að hvítir múslímar frá Balkanskaga hafi verið ráðnir til verksins og að þeir hafi jafnframt verið málaliðar á vegum al-Qaeda. Fyrrverandi lögreglustjóri Lundúna bendir á í blaðagrein að um þrjúþúsund breskra borgara hafi sótt þjálfunarbúðir al-Qaeda og segir þá hafa verið að verki. Engin kenning hefur verið staðfest. Fjöldi fólks hefur lagt leið sína á lestarstöðvarnar þar sem hryðjuverkin voru framin og lagt þar blóm. Í gærkvöldi varð uppi fótur og fit þegar trúverðug hótun barst yfirvöldum í Birmingham. Í kjölfarið var miðborgin rýmd og á milli tuttugu og þrjátíu þúsund manns var skipað að yfirgefa svæðið. Böggull í strætisvagni var sprengdur í loft upp en ekki reyndist um sprengju að ræða. Lundúnabúar eru eftir sem áður staðráðnir í að láta ekki skelfa sig og ógna: þeir mættu tugþúsundum saman á götur borgarinnar í dag til að hylla þá sem börðust í seinni heimsstyrjöldinni, og kannski til að sýna að harkan sem bjó í Lundúnabúum þá er ennþá til staðar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×