Erlent

Múslimar harma árásirnar

Ahmed Sheikh, forseti félags múslima í London fordæmir árásirnar í London og segist óttast að múslimar þurfi að gjalda fyrir hryðjuverkin. Hann segist hafa mestar áhyggjur af konum sem bera höfuðslæður og mæltist til þess við alla múslima að þeir færu varlega næstu daga og létu lítið fyrir sér fara. Hann segir að lögregluyfirvöld þurfi nú að íhuga herta öryggisgæslu við moskur og aðra samkomustaði múslima. Hann sendi einnig fjölskyldum þeirra sem féllu í árásunum samúðarkveðjur og segir samfélag múslima standa með öðrum Lundúnarbúum gegn hryðjuverkum. Sheikh segir samskipti múslimasamfélagsins við aðra íbúa borgarinnar og stjórnvöld hafa verið með miklum ágætum en segir þau samskipti nú í ákveðinni hættu. Hann vill því árétta að ein sprengingin varð í einu fjölmennasta múslimahverfi borgarinnar, nærri Aldgate og hafi því beinst jafnt að múslimum sem öðrum. Sir Iqbal Sacranie aðalritari múslimaráðs Bretlands segist einnig fordæma árásirnar harðlega og að tilgangur hryðjuverkamannanna hafi greinilega verið að draga úr samstöðu meðal borgarbúa. Hann segist vonast til þess að allir borgarbúar taki höndum saman um að upplýsa lögregluna til að hægt verði að hafa hendur í hári þeirra sem bera ábyrgð á hryðjuverkunum. Sacranie viðurkennir þó að ákveðin öfl innan múslimasamfélagsins reyni líklega að misnota atburðina til þess að ýta undir misrétti og hatur. Salmann Tamini formaður félags múslima á Íslandi segir aðspurður um viðbrögð félagsins við hryðjuverkunum: "Við fordæmum auðvitað þessi hryðjuverk. Þau eru mjög óhugnaleg, sama hvort múslimar, kristnir eða aðrir sem að þeim standa." "Allt skynsamt fólk veit að ekki hægt að fordæma alla múslima fyrir slíkar árásir," segir Salmann og hefur ekki áhyggjur af því að múslimar á Íslandi verði fyrir aðkasti í kjölfar hryðjuverkanna.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×