Erlent

Tala látinna enn á reiki

Tala þeirra sem fórust í hryðjuverkaárásunum á Lundúnaborg í morgun er enn mjög á reiki. Reuters-fréttaþjónustan hefur heimildir fyrir því að fjörutíu og fimm hafi farist; staðfest tala frá Lundúnalögreglunni er þrjátíu og þrír. Slasaðir eru sagðir á bilinu hundrað og fimmtíu, sem eru alvarlega slasaðir, til eitt þúsund. Breska útvarpið greinir frá skelfilegum aðstæðum á vettvangi: fólk sem misst hefur útlimi og er mjög illa leikið. Fjöldi sprengjanna er einnig á reiki en svo virðist sem sjö sprengjur hafi sprungið á fjórum stöðum: á milli Russel Square og King's Cross neðanjarðarlestarstöðvanna; á milli Moorgate, Aldgate og Liverpool Street stöðvanna; sú þriðja nærri Edgware Road og sú fjórða á Tavistock square, þar sem sprengja sprakk í strætisvagni. Áður óþekktur hópur, sem kallar sig "Leynihóp heilags stríðs al-Qaida í Evrópu", lýsti árásunum á hendur sér í yfirlýsingu sem birt var á íslamskri vefsíðu. Á henni segir meðal annars að Bretland brenni nú af ótta og skelfingu í norðri, suðri, austri og vestri. Þetta hefur ekki fengist staðfest og lögreglan segist hvorki hafa fengið viðvaranir né yfirlýsingar þar sem gengist er við tilræðunum. Í yfirlýsingu hryðjuverkahópsins eru ríkisstjórnir Danmerkur, Ítalíu og annarra "krossfara-ríkisstjórna" varaðar við og þeim ráðlagt að kalla sveitir sínar heim frá Írak og Afganistan hið fyrsta. Hægt er að horfa á aukafréttatíma Stöðvar 2 með því að smella á hlekkinn hér að neðan.
MYND/SKY
MYND/AP


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×