Innlent

Segir fleiri spurningar vakna

Eignarhaldsfélagið Ker afsalaði sér húseigninni að Hverfisgötu 33 í Reykjavík til tveggja félaga Framsóknarflokksins skömmu eftir að samþykkt var að ganga til viðræðna við S-hópinn um kaup á Búnaðarbankanum en Ker hf. leiddi þann hóp. Helgi Hjörvar, alþingismaður Samfylkingarinnar, hefur ritað Magnúsi Stefánssyni, formanni fjárlaganefndar Alþingis, bréf þar sem farið er fram á skýringar á því hvort rétt sé að þetta hafi verið gert á sama tíma og unnið var að gerð kaupsamnings vegna Búnaðarbankans og hver þáttur Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, í ferlinu hafi verið. Í bréfi Helga til Magnúsar segir Helgi ýmsu ósvarað varðandi þátt forsætisráðherra við sölu ríkisins á Búnaðarbankanum. Varpar hann fram þremur spurningum sem hann óskar svara við. Vill hann fá skýringar á fullyrðingum Ríkisendurskoðanda að enginn söluhagnaður hafi verið af viðskiptum Hesteyrar með bréf í Keri þegar svör Kauphallar Íslands benda til að verðmæta bréfa hafi hækkað meðan á einkavæðingarferlinu hafi staðið um hálfan milljarð króna. Helgi vill einnig fá skjalfest hvort eða hvenær Halldóri hafi verið kunnugt um kaup Skinneyjar-Þinganess í Hesteyri og kaup Hesteyrar í Keri í kjölfarið en um það hefur forsætisráðherra verið tvísaga að mati Helga. Hefur hann óskað þessara upplýsinga sem fyrst og segir mikilvægt að sannleiksgildið sé kannað til hlítar. Hvorki náðist í Halldór Ásgrímsson né Magnús Stefánsson þegar eftir var leitað og Sigurður Þórðarson, ríkisendurskoðandi, vildi ekki tjá sig. Framsóknarflokkurinn sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöld þar sem segir að flokkurinn hafi keypt húsið 1997 og flokkurinn flutt skrifstofur sínar þangað 1998. Dráttur hafi hins vegar orðið á að gengið hafi verið frá afsali að eigninni en í millitíðinni hafi Framsóknarflokkurinn borið allan kostnað af rekstri hússins. Því séu aðdróttanir um að kaupin á Hverfisgötu 33 tengist sölu Búnaðarbankans algjörlega úr lausu lofti gripnar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×