Erlent

Ár síðan Írakar tóku yfir

Í dag er ár liðið frá því að Írakar tóku við stjórnartaumunum í eigin landi úr höndum Bandaríkjamanna. Ýmislegt hefur áunnist en vandamálin sýnast þó miklu stærri. Það verður varla sagt að íröksk stjórnvöld hafi komist langt á þessu eina ári, enda aðstæður afar erfiðar. Enn er íbúunum ekki tryggð lágmarksheilbrigðisþjónusta, rafmagn, vatn og aðrar brýnar lífsnauðsynjar. Það sem skiptir flesta þó líklega mestu máli nú er að geta lifað við öryggi en ástandið hefur lítið sem ekkert batnað í þeim efnum. Margir eru hræddir við að senda börnin sín í skóla af ótta við að þeim verði rænt eða að þau lendi í skothríð eða sprengingu. Samkvæmt tölum AP-fréttastofunnar hafa 479 bílasprengjur sprungið síðan bráðabirgðastjórnin tók við - að meðaltali 1,3 á dag. Í dag var elsti þingmaður Íraka, Dhari al-Fayadh, áttatíu og sjö ára gamall sjítamúslimi, til dæmis myrtur í sjálfsmorðssprengingu. Mun fleiri eru á listanum yfir fórnarlömb dagsins en venjulegar fréttastofur komast hreinlega ekki yfir að greina frá öllum tilræðunum. Íröksku lögreglunni ásamt Bandaríkjaher hefur gengið erfiðlega að knésetja uppreisnarmenn í landinu en Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í vikunni að líklega myndi taka hátt í áratug að koma á friði í landinu. Það eru því ærin verkefni sem bíða íraskra yfirvalda, ekki bara næsta árið heldur áratugina.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×