Innlent

Rækjan nærri hruni fyrir vestan

Rækjustofninn veiðist vart lengur á Íslandsmiðum og er nánast hruninn í Ísafjarðardjúpi. Hafrannsóknarstofnunin leggur til að upphafsafli úthafsrækju verði minnkaður um þriðjung á næsta fiskveiðiári. Í nýrri skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um nytjastofna sjávar og aflahorfur á næsta fiskveiðiári er gert ráð fyrir að rækjuveiðar á grunnslóð norðan lands verði áfram í lágmarki eða jafnvel engar á næstu vertíð en mikil þorsk- og ýsugengd hefur verið fyrir norðan undanfarin ár. Samkvæmt mælingum Hafró er rækjustofninn í Arnarfirði undir meðallagi og í Ísafjarðardjúpi er hann nánast hruninn. Er þetta talið stafa af aukinni þorskgengd og hefur afli verið nokkuð sveiflukenndur. Hið sama er að segja um rækjustofninn í Skagafirði og í Húnaflóa, en í fyrra fannst nær engin rækja í innanverðum Húnaflóa. Engin rækjuveiði var í norðanverðum Breiðafirði í fyrra og hitteðfyrra og á miðunum við Snæfellsnes hefur afli verið lítill undanfarin ár. Lagt er til að upphafsafli á miðunum við Snæfellsnes verði 200 tonn á næsta fiskveiðiári. Hvað úthafsrækjuna varðar þá gerir Hafrannsóknarstofnunin ráð fyrir að stofninn minnki á næstu árum,en það er þó háð því hversu mikil þorksgengd verður á rækjuslóð í framtíðinni. Búist er við að þorksgengd á rækjumiðunum verði svipuð í ár og hún var í fyrra og að óbreytt sókn leiði því til 15 þúsund tonna afla á næsta fiskveiðiári. Samkvæmt niðurstöðum úr stofnmælingu úthafsrækju árið 2004 er stærð árganganna 2000, 2001 og 2002 yfir meðallagi en þar sem mikið hefur verið um þorsk þykir óvíst hvort stofnstærð rækju haldist óbreytt á fiskveiðiárinu 2005 til 2006. Stofnunin leggur til að upphafsafli úthafsrækju fyrir næsta fiskveiðiár verði 10 þúsund tonn, eða tveir þriðju af hámarksafla yfirstandandi fiskveiðiárs.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×