Innlent

Monopoly kastað á milli

Brask og bruðl er aðalmálið í spilinu Monopoly, eða Matador eins og flestir kalla það. Af þessum sökum þótti ungum sjálfstæðismönnum tilvalið að senda Alfreð Þorsteinssyni, stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur, spilið í dag. Honum finnst það hins vegar betur komið hjá Davíð Oddssyni, guðföður Perlunnar. Ungum sjálfstæðismönnum hugnast ekki fyrirhuguð sumarhúsabyggð við Úlfsljótsvatn eða aðrar aðgerðir stjórnenda Orkuveitunnar sem þeim finnst ekki samrýmast hlutverki Orkuveitunnar. Til að mótmæla taumlausri eyðslu Alfreðs Þorsteinssonar gáfu þeim honum spilið Monopoly, en orðið þýðir einmitt einokun. Alfreð svaraði um hæl og sendi spilið til baka því honum finnst sanngjarnt að sjálfstæðismenn líti í eigin barm. Hann segir rekstur Orkuveitu Reykjavíkur ganga gríðarlega vel, fyrirtækið græði á hverju ári nokkra milljarða og hafi lagt rúma 20 milljarða á núvirði í borgarsjóð þau tíu ár sem R-listinn hafi verið við stjórn. Því skilji hann ekki hvers vegna sjálfstæðismenn amist sífellt út í Orkuveituna. Hins vegar er Perlan svolítill baggi á Orkuveitunni, að sögn Alfreðs, og því  finnst honum tilvalið að félagsmenn SUS bjóði Davíð Oddsyni, fyrrverandi borgarstjóra, í Perluna til að spila Monopoly. Spurður hvort hann sé ekki aðeins að reyna að dreifa athyglinni frá því sem finna megi að í rekstri orkuveitunnar, t.d. risarækjueldi, gagnaflutningar Línu.Nets og fleiru, segir Alfreð að OR hafi ekkert verið að tapa á þessum verkefnum, öfugt við „perluævintýri“ sjálfstæðismanna. Hann vill því ekki kannast við að verið sé að bruðla í rekstrinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×