Innlent

Stýrðu sölu bankanna

Selja átti allan eftirstandandi hlut ríkisins í Landsbankanum og Búnaðarbankanum til almennings haustið 2002 og var framkvæmdanefnd um einkavæðingu langt komin með undirbúninginn. Samkvæmt vilja Davíðs Oddssonar átti að tryggja dreifða eignaraðild með því að hámarka kaup hvers og eins við þrjú til fjögur prósent. Þetta, ásamt ýmsu öðru, kom fram í viðtölum við fjölda viðmælenda Fréttablaðsins við vinnslu á greinaflokki um einkavæðingu ríkisbankanna sem hefur göngu sína í dag. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson kipptu einkavæðingaferlinu úr höndunum á framkvæmdanefnd eftir að Björgólfur Guðmundsson hringdi í Davíð og lýsti vilja til að kaupa annan hvorn bankann. Davíð og Halldór fyrirskipuðu nefndinni að undirbúa sölu beggja bankanna, til eins fjárfestis hvorn banka. Átök voru milli Davíðs og Halldórs um sölu bankanna sem náði hámarki í baráttunni um yfirráðin í VÍS, og var stjórnarsamstarfið í uppnámi um tíma vegna hennar. Davíð og Halldór áttu beinan þátt í að stýra bönkunum í hendur "réttra" aðila. Samson fékk að kaupa Landsbankann vegna vilja Sjálfstæðisflokksins, þrátt fyrir að hafa verið með lægsta tilboðið í bankann, og S-hópurinn fékk að kaupa Búnaðarbankann og VÍS fyrir tilstuðlan Framsóknarflokksins. Öllum þeim sem komu að einkavæðingarferlinu, hvorum megin við borðið sem þeir sátu, var frá upphafi ljóst að ætlun ráðherranna væri sú að Samson fengi að kaupa Landsbankann. Ráðherrar Framsóknarflokksins, þau Halldór Ásgrímsson og Valgerður Sverrisdóttir, gerðu ítarlegar tilraunir til þess að fá Kaldbak og S-hópinn til að sameinast um kaupin á Búnaðarbankanum. Halldór Ásgrímsson skipulagði símafund milli Kaldbaksmanna og fulltrúa S-hópsins í því skyni að reyna að koma á samvinnu þeirra á milli. Hann var sjálfur þátttakandi á fundinum. Fréttablaðið sendi fjölda beiðna til framkvæmdanefndar og viðskiptaráðuneytinu um upplýsingar um sölu bankanna og fékk synjun við þeim öllum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×