Innlent

Ólga á landsfundi vegna smölunar

Ólga var á landsfundi Samfylkingarinnar vegna mikillar kappsemi ungliðanna við að smala í varaformannskjöri flokksins. Fullyrt var að rútur hefðu komið á fundinn með börn og unglinga sem komu í þeim tilgangi einum að kjósa Ágúst Ólaf Ágústsson í kosningunni en hann sigraði með yfirburðum. Ýmsum þótti nóg um kappsemi foringjans unga og einn karlkyns þingmaður hafði á orði að ástandið í flokknum væri orðið alveg eins og heima hjá honum: konur og börn réðu þar öllu. Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingar, sem laut í lægra haldi fyrir Ágústi Ólafi, segir að þegar heilu bílfarmarnir af börnum hafi tekið að streyma í hús, rétt fyrir kosninguna, hafi hann gert sér grein fyrir að úrslitin gætu orðið óvænt. Honum þyki svona vinnubrögð á mörkum þess að vera siðleg. Háværar raddir voru uppi um að greidd hefðu verið skráningargjöld fyrir fjölda barnungra einstaklinga með einni ávísun. Ágúst Ólafur segir að þessar sögur hafi verið háværar á fundinum en þetta sé orðum aukið. Ekkert sé óvenjulegt við það að leita stuðnings; kosningar gangi út á að kynna sig og óska eftir stuðningi. Honum skilst að Ungir jafnaðarmenn hafi að hluta greitt skráningargjöld fyrir sína félagsmenn og segir Ágúst að það hafi önnur aðildarfélög Samfylkingarinnar einnig gert, enda lengi tíðkast og ekkert óeðlilegt við það. Áhugi á forystunni virtist dvína mjög skyndilega hjá fundarmönnum þegar 839 kusu í varaformannskjörinu en einungis rúmlega 500 þegar kosinn var ritari, tæpri klukkustund síðar. Ágúst skýrir það með því að varaformannskosningin hafi verið spennandi og fengið fjölmiðlaumfjöllun, auk þess sem úrslitaleikur ensku bikarkeppninnar hafi farið fram á sama tíma og kosning í embætti ritara.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×