Innlent

Gunnar fær engan stuðning eigin varaþingmanns

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir 1. varaþingmaður á lista Frjálslynda flokksins í Suðvestur kjördæmis Gunnars Örlygssonar ætlar ekki að fylgja honum í Sjálfstæðisflokkinn. Gunnar náði kjöri í þessu kjördæmi sem uppbótarþingmaður Frjálslynda flokksins í Alþingiskosningunum þann 10. maí árið 2003. F-listinn fékk 6,75% prósent gildra atkvæða þar. Á heimasíðu Frjálslynda flokksins tjáir Sigurlín Margrét sig um brotthvarf Gunnars úr flokknum. "Mér varð eins og flestum brugðið, get svo sem vel ímyndað mér að jafnavel harðasta sjálfstæðismanni hafi líka verið brugðið, sér í lagi miðað við málflutning hans í garð Sjálfstæðismanna og stjórnliða almennt á þingi, síðustu daga," segir Sigurlín Margrét. Hún segir það almenna skoðun að svona eigi menn ekki að gera. Nái sannfæring þeirra ekki að samræmast þeirri stefnu sem þeir voru kosnir á þing fyrir, eigi þeir einfaldlega að segja af sér og bíða eftir næstu umferð í nýjum flokki, þar sem sannfæring þeirra sameinist stefnu þess flokks sem þeir hafa valið sér. "Kjósendur hér í Suðvesturkjördæmi gáfu Gunnari umboð með atkvæði sínu til að berjast gegn viðloðandi stefnu í fiskveiðimálum, sem og öðrum málum sem ekki er var full sátt um. Ég lít svo á að þingsætið sé eign kjósenda í Suðvesturkjördæmi, ekki persónuleg eign Gunnars. Mér finnst hann þar með engan rétt hafa til að ráðstafa því eftir eigin geðþótta, - jafnvel þó hann hafi skipt um skoðun," segir Sigurlín Margrét á heimasíðu Frjálslynda flokksins. "Staða mín eftir brotthvarf Gunnars Örlygssonar úr Frjálslynda flokkinum er sú að ég er enn réttkjörin varaþingmaður Frjálslynda flokksins í Suðvesturkjördæminu. Með þetta í huga og ef sú staða kemur upp að ég komi inn ef Gunnar forfallast, þá mun ég koma inn sem varaþingmaður Frjálslynda flokksins. Það hefur ekki hvarflað að mér að fylgja honum í Sjálfstæðisflokkinn, mér fyndist ég væri að svíkja kjósendur ef ég gerði það og ætla mér ekki að gera það", segir Sigurlín Margrét. Sjá nánar á heimasíðu Frjálslynda flokksins


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×