Innlent

Aldrei fleiri í framhaldsskóla

Aldrei hafa fleiri 16 ára ungmenni á Íslandi verið skráð í framhaldsskóla en síðastliðið haust en þá voru 93 prósent ungmenna á þessum aldri skráð til skólavistar. Síðustu þrjú ár hefur skólasókn 16 ára ungmenna mælst yfir 90 prósent. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands. Samkvæmt tölunum er töluvert brottfall nemenda á öðru og þriðja ári í framhaldsskóla. Þegar skólasókn 17 ára árgangsins er borin saman við skólasókn 16 ára ungmenna kemur í ljós að um tíu prósent brottfall er að ræða. Og munurinn er töluverður þegar landshlutar eru skoðaðir. Á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur, Vestfjörðum og Austurlandi eru hlutfallslega fleiri nemendur í skóla við 17 ára aldur en í öðrum landshlutum, eða frá 84 til 87 prósent. Á Suðurnesjum sækja fæst 17 ára ungmenni nám eða 70 prósent ungmenna í aldurshópnum. Þar er brottfall á öðru og þriðja ári einnig mest en 28 prósent færri ungmenni á 18 ára aldri stunda nám á Suðurnesjum en 16 ára. Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru stúlkur duglegri að sækja skóla en strákar. Skólasókn 16 ára stúlkna á landsvísu er 94 prósent á móti 92 prósentum drengja. Við 19 ára aldurinn er skólasókn karla 66 prósent á móti 73 prósentum kvenna.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×