Fastir pennar

Frakklandsforseti í kröppum sjó

Jacques Chirac, foreti Frakklands, reynir nú allt hvað hann getur til að fá franska kjósendur til að samþykkja nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í lok næsta mánaðar. Samkvæmt skoðanakönnunum virðist sem andstaðan við hina nýju stjórnarskrá aukist stöðugt í Frakklandi. Stjórnmálaskýrendur á meginlandinu eru nú farnir að velta því alvarlega fyrir sér hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir Evrópusambandið og Frakka ef þeir hafna stjórnarskránni. Bent hefur verið á að neitun Frakka væri ekki hliðstæð því að eitthvert smáríki í Evrópu segði nei í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá, því að oft mætti koma til móts við smærri ríkin með smávægilegum breytingum. Það væri hins vegar ekki hægt í tilfelli Frakka. Þá er bent á að Frakkar séu meðal frumherjanna innan Evrópusambandsins og það yrði því mikill álitshnekkir fyrir frönsk stjórnvöld færu andstæðingarnir með sigur af hólmi. Í breska blaðinu Financial Times kom fram sú skoðun í síðustu viku að ef allt færi á versta veg innan Evrópusambandsins varðandi nýju stjórnarskrána gætu Íslendingar hugsanlega komið til bjargar. Þeim yrði einfaldlega boðin aðild að sambandinu og samið við þá sérstaklega um sjávarútvegsmál. Þannig yrði að leggja fram breytta stjórnarskrá fyrir allar aðildarþjóðirnar. Þetta var borið undir Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og taldi hann þessa skoðun sem fram kom í Financial Times ákaflega langsótta. Í viðtali við Fréttablaðið sagði forsætisráðherra af þessu tilefni: „Ég hef ekki trú á því að þetta sé veruleikinn,“ segir Halldór. „Hins vegar finnst mér mjög gott að það skuli vera vakin athygli á sjónarmiðum Íslands sem hefur vantað upp á að væru rædd innan Evrópusambandsins. Við höfum mikla sérstöðu að því er varðar sjávarútveg og fiskveiðar svo að ég tel að þessi leiðari sé af hinu góða, að því leytinu til að hann vekur athygli á aðstæðum Íslendinga. En ég hef ekki trú á því að menn fari að vinna mál sem þetta á þessum grundvelli.“ Mikil umræða um afstöðu Frakka til þjóðaratkvæðagreiðslunnar 29. maí hefur haft áhrif í nágrannalöndunum. Sex þjóðir af 25 innan Evrópusambandsins hafa reyndar þegar samþykkt hina nýju stjórnarskrá, en nokkrum dögum eftir atkvæðagreiðsluna í Frakklandi verða greidd atkvæði í Hollandi og þar ber nú meira en áður á efasemdaröddum um stjórnarskrána. Leiðtogar nokkurra sambandsríkja í Þýskalandi hafa líka hótað að styðja ekki stjórnarskrána, nema með vissum skilyrðum og hæstiréttur landsins mun úrskurða nú í vikunni hvort efnt verður til þjóðaratkvæðagreiðslu eins og í mörgum öðrum löndum innan sambandsins. Afstaða Frakka er talin hafa áhrif á inngöngu nýrra ríkja í Evrópusambandið. Hugsanlegt er að aðildarviðræðum við Tyrki verði slegið á frest, en þær áttu að hefjast í haust og yfirstandandi viðræðum við Búlgaríu og Rúmeníu seinkaði. Það er því ákaflega mikilvægt fyrir Frakklandsforseta að sannfæra landsmenn sína um ágæti hinnar nýju stjórnarskrár Evrópusambandsins, því að öðrum kosti eiga Frakkar á hættu að verða ekki eins áberandi og áhrifamiklir í Evrópu og fram til þessa.





×