Innlent

Samgönguráðherra skammaður

Formenn stjórnarflokkanna gáfu skýrt loforð fyrir síðustu þingkosningar um að framkvæmdir við Suðurstrandarveg og Gjábakkaveg yrðu langt komnar á árinu 2004. Hvorugt stóðst og hafa báðir þessir vegir nú verið skornir niður og mátti samgönguráðherrann sitja undir skömmum í þinginu fyrir vikið. Þeir Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson kynntu, þremur mánuðum fyrir síðustu kosningar, ákvörðun um stórauknar framkvæmdir, sem skyldi vinna á næstu átján mánuðum. Þar á meðal að setja skyldi 500 milljónir í Suðurstrandarveg, 200 milljónir í lagfæringar á veginn um Hellisheiði og annað eins í Gjábakkaleið. Á blaðamannafundinum voru þeir spurðir hvað þetta þýddi og svaraði Davíð því til að bæði Suðurstrandarvegur og Gjábakkaleið kæmust langt á þessum peningum. Ekki reyndist innistæða fyrir þessu loforði því umræddu átján mánaða tímabili lauk síðastliðið haust án þess að framkvæmdir hæfust. Gjábakkavegi hefur verið frestað til ársins 2007 og Suðurstrandarvegi hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Björgvin Sigurðsson, þingmaður Samfylkingar, deildi hart á samgönguráðherra fyrir þennan niðurskurð í umræðum á Alþingi í fyrradag. Ráðherra svaraði því til að mikilvægara væri að ljúka við endurbætur á Hellisheiði og tvöföldun Reykjanesbrautar en að ljúka Suðurstrandarvegi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×