Sport

Dregið í Meistaradeildinni í dag

Dregið verður í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í dag en athygli vakti að Arsenal og Manchester United duttu út í 16-liða úrslitum á meðan Chelsea og Liverpool tryggðu sér áframhaldandi þátttökurétt í keppninni. Chelsea var reyndar með bakið upp við vegg eftir fyrri viðureign liðsins við Barcelona sem fór 2-1 fyrir Börsungum. Jose Mourinho og lærisveinar hans voru ekki af baki dottnir og unnu seinni leikinn á Stamford Bridge 4-2 og slógu þar með Barcelona úr leik. Mourinho olli töluverðu fjaðrafoki innan UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, og var kallaður "óvinur fótboltans" af Volker Roth, yfirmanni dómaramála hjá UEFA. Liverpool vann báða leikina gegn þýska liðinu Bayer Leverkusen 3-1 og samanlagt 6-2. "Það var ánægjulegt að komast áfram því við vitum hvað þessi keppni er mikilvæg aðdáendum liðsins," sagði Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool. Önnur lið í pottinum ásamt Liverpool og Chelsea eru Bayern Munchen, Juventus, PSV Eindhoven, AC Milan, Lyon og Inter Milan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×