Innlent

Formaður FG fagnar yfirlýsingunni

Formaður Félags grunnskólakennara fagnar því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra vilji stuðla að því að gera samræmd próf í grunnskóla skilvirkari. Menntamálaráðherra telur ekki rétt að hætta prófunum. Í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær krafði Katrín Júlíusdóttir Samfylkingunni menntamálaráðherra um viðbrögð við ályktun Félags grunnskólakennara frá því í síðustu viku um að leggja bæri af samræmd próf í núverandi mynd. Grunnskólakennarar telja að prófin leggi óeðlilegar kröfur á nemendur og geti haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra. Katrín sagði ályktunina þess eðlis að hana þyrfti að skoða vel og vandlega. Menntamálaráðherra fagnaði umræðu um samræmdu prófin en sagðst ekki koma til með að hætta framkvæmd þeirra.  Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, leggur áherslu á að kennarar vilji ekki leggja samræmdu prófin af sem slík heldur hætta þeim í núverandi mynd. Þau henti nefnilega ekki öllum nemendum en mikilvægt sé að allir nemendur njóti sannmælis í prófunum. Ólafur fagnar því að menntamálaráðherra vilji taka þessi mál til skoðunar og segir brýnt að prófin verði með þeim hætti að þau gefi sem eðlilegasta mynd af færni nemenda.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×