Fastir pennar

Öðru vísi heimsveldi

Það er skiljanlegt að Bandaríkjamönnum gangi stundum illa að taka Evrópusambandið alvarlega sem heimsveldi. Þeir kvarta undan því að vita ekki við hvern þeir eiga að tala í Evrópu og að ESB sé svo innbyrðis klofið að það ekki sé hægt að líta á það sem samstætt fyrirbæri þegar kemur að alþjóðamálum. Að auki benda þeir á að ESB ráði hvorki yfir herstyrk sem sé með nokkru móti sambærilegur við herveldi Bandaríkjanna, né sé líklegt að Evrópumenn komi sér saman um að beita því vopnavaldi sem ríki sambandsins ráða þó í sameiningu yfir. Þegar Bush heimsótti Evrópusambandið í síðustu viku voru tveir menn helst í fyrirsvari fyrir ESB. Annar þeirra er forsætisráðherra Lúxembúrgar þar sem herinn er fámennari en fylgdarlið Bush í Brussel og það þótt annars alveg ágæt lúðrasveit lúxembúrgska hersins sé talin með. Hinn er fyrrverandi forsætisráðherra Portúgals, lands sem ekki hefur verið stór aðili að heimsmálunum síðustu aldir, og að auki maður sem í aðdraganda Íraksstríðsins var gestgjafi leiðtogafundar hinna herskáu bandamanna án þess þó að styðja innrásina. Í hópi leiðtoga ESB sá Bush bæði nánustu bandamenn sína og menn sem hafa veitt Bandaríkjunum öflugra aðhald í heimsmálunum en nokkrir aðrir. Það eru auðvitað ekki aðeins Bandaríkjamenn sem eiga erfitt með að taka ESB alvarlega sem heimsveldi. Flestir Evrópubúar líta til eigin höfuðborga frekar en til Brussel þegar kemur að mörkun utanríkisstefnu. Sameiginlegir hagsmunir Evrópulanda verða hins vegar sífellt augljósari og um leið veigameiri í mörkun utanríkisstefnu hvers lands fyrir sig. Hugmyndir þorra Evrópumanna um veröldina reynast líka oftar en ekki tiltölulega svipaðar. Þetta kom vel í ljós þegar sundrung ríkti á meðal leiðtoga Evrópulanda um afstöðuna til innrásar Bandaríkjamanna og Breta í Írak. Skoðanir almennings í Evrópu á þessu máli voru tiltölulega líkar í löndum álfunnar þótt ríkisstjórnir kæmust að ólíkum niðurstöðum. Meirihluti fólks í Evrópu vill að hvert ríki fyrir sig haldi sínu fullveldi í mikilvægustu greinum utanríkismála en þó hníga flest rök til þess að á næstu árum muni samstarf og samræming á sviði utanríkismála innan ESB vaxa stórlega frá því sem verið hefur. Þótt ESB hafi ekki sameiginlega stefnu í mörgum mikilvægum greinum heimsmála kemst Evrópusambandið hreinlega ekki hjá því að hafa mjög umfangsmikil áhrif í heiminum. Þrátt fyrir sundrungina og viljaleysi til beinnar þátttöku í átakamálum heimsins er Evrópusambandið það fyrirbæri á jörðinni sem kemst næst því að vera heimsveldi við hlið Bandaríkjanna enda eru áhrif á gang heimsmála ekki eingöngu fólgin í beitingu vopnavalds. Ríki Evrópusambandsins og sambandið sjálft veita flestum af fátækustu ríkjum heims þorra þeirrar aðstoðar sem þau fá og standa undir talsverðum meirihluta af öllum útgjöldum til þróunar og hjálparstarfs í veröldinni. Eftir flóðin í Asíu um jólin veitti Þýskaland eitt þrisvar sinnum meiri aðstoð en Bandaríkin svo dæmi sé tekið. Tilvist Evrópusambandsins og vilji ríkja þess hefur líklega stuðlað meira en nokkuð eitt annað að þeirri djúpstæðu þróun til lýðræðis og mannréttinda sem átt hefur sér stað í austanverðri og sunnanverðri Evrópu, og allt til Tyrklands, á síðustu árum. Vonin um aðild að ESB hefur í grundvallaratriðum mótað á annan tug ríkja á síðustu árum og gerir enn. Um leið eru það ESB og ríki innan þess sem leiða alþjóðlega baráttu gegn umhverfisspjöllum og hlýnun andrúmsloftsins á meðan Bandaríkin halda að sér höndum. Það eru einnig þessi sömu Evrópuríki sem berjast fyrir þéttara neti alþjóðalaga og aukinni virðingu fyrir þeim. Í þeim efnum hafa Bandaríkin stundum verið helsti andstæðingur ESB ríkja, til dæmis hvað varðar alþjóðlegan stríðsglæpadómstól, sem Bandaríkin berjast gegn, og hvað varðar þann skilning að innrás eins ríkis í annað skuli ólögmæt nema samþykki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fáist fyrir henni. Það er ekki aðeins hvað varðar lýðræði, þróunarhjálp, mannréttindi, umhverfismál, alþjóðalög og menningu sem Evrópusambandið hefur virkað sem leiðandi heimsveldi, heldur er það mikilvægasti markaður flestra þjóða heims. Þótt menn horfi nú mjög til gífurlegra viðskipta Kína og Bandaríkjanna þá er ESB stærri markaður fyrir Kína en Bandaríkin og það sama má segja um stóran hluta ríkja heimsins.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×