Innlent

Nemendur njóta ekki sannmælis

Margir nemendur njóta ekki sannmælis í skriflegum prófum, segir formaður Félags grunnskólakennara, en félagið vill að samræmd próf verði lögð niður í núverandi mynd. Á aðalfundi Félags grunnskólakennara var samþykkt ályktun þess efnis að leggja ætti niður samræmdu prófin í núverandi mynd þar sem þau samræmdust ekki lengur einstaklingsmiðuðu námi og framtíðarsýn fræðsluyfirvalda. Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir að í umræðum á fundinum hafi komið fram að mörgum þætti prófin orðin of stýrandi í skólastarfinu og farin að hafa of mikil áhrif á daglegt skólastarf, jafnvel þannig að sumir nemendur nái ekki að njóta sín í náminu.  Spurður hvort túlka megi þetta þannig að verið sé að reyna að hlífa veikasta hlekknum í keðjunni, en þeir sem hugsanlega geti betur fái þá ekki að njóta sín, segir Ólafur það ekki rétt. Það sé frekar verið að stuðla að því að allir njóti sannmælis og geti sýnt hvað í þeim búi.  Ólafur segir samræmdu prófin ekki tæki til samanburðar á skólum, til þess séu þau ekki besti mælikvarðinn og önnur tæki sé betur til þess fallin. „Þessi samanburður er ekki að tilstuðlan skólafólks heldur miklu frekar eitthvað sem fjölmiðlamenn hafa verið að draga fram til að reyna að bera saman skóla,“ segir Ólafur.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×