Innlent

Samræmd próf lögð niður

Aðalfundur Félags grunnskólakennara leggur til við menntamálaráðuneytið að samræmd próf í grunnskólum verði lögð niður. Í ályktun fundarins kemur fram að með vaxandi þróun undanfarin ár í átt að einstaklingsmiðuðu námi og í ljósi framtíðarsýnar fræðsluyfirvalda þá hafi samræmd próf ekki þann tilgang og vægi sem þeim hafi verið ætlað í upphafi, heldur gangi í raun þvert á þá stefnu. Segir í ályktuninni að samræmd próf séu í dag orðin markmið og stýring skólastarfs í stað þess að vera uppbyggilegt mælitæki fyrir áframhaldandi starf. Félag grunnskólakennara telur prófin gefa mjög takmarkaða mynd af hæfni nemenda og séu fremur til þess fallin að mismuna þeim. Bent er á að niðurstöður samræmdra prófa séu oft rangtúlkaðar og jafnvel notaðar til að meta gæði skóla sem hafi aldrei verið markmið þeirra. Samræmd próf í 4. og 7. bekk leggi óeðlilegar kröfur á nemendur og geti haft mjög neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra. Þá segir að samræmd próf í 10. bekk gagnist grunnskólanum ekki og séu í raun orðin inntökupróf í framhaldsskóla. Eðlilegra sé að framhaldskólarnir meti sjálfir hvort nemendur standist inntökuskilyrði. Í ályktun aðalfundarins segir ennfremur að eðlilegra sé að leggja áherslu á stöðluð, greinandi stöðupróf sem nemendur geti leyst þegar þeir séu reiðubúnir. Slík próf byggi upp fremur en að brjóta niður.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×