Innlent

Þorsteinn situr á eigin forsendum

Að undanskildum Þorsteini Pálssyni, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, hefur enginn sendiherra gegnt trúnaðarstarfi fyrir stjórnmálaflokka. Þetta kom fram í svari Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra við gagnrýni Marðar Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um að Þorsteinn sæti í stjórnarskrárnefnd fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. "Þorsteinn Pálsson situr í stjórnarskrárnefnd á eigin forsendum," sagði Davíð. "Til þeirra verka fær hann engin fyrirmæli frá mér heldur er hann skipaður vegna menntunar, faglegrar reynslu og mikillar þekkingar og almennt séð augljósra og óefaðra hæfileika til að fást við þetta verkefni," sagði Davíð. "Sendiherrum og öðrum starfsmönnum utanríkisþjónustunnar er óheimilt samkvæmt lögum að vinna önnur störf nema sérstaklega standi á og samþykki utanríkisráðherra komi til," sagði Mörður. "Mér finnst það skynsamleg regla að sendiherrar eða aðrir starfsmenn utanríkisþjónustunnar vinni ekki trúnaðarstörf fyrir stjórnmálaflokka. Það er á mörkum hins siðlega og stangast á við anda laganna sem hér um ræðir. Þessu sérstaka ákvæði er ætlað að tryggja að starfsmenn utanríkisþjónustunnar eigi sér engan annan húsbónda meðan þeir gæta hagsmuna þjóðarinnar á erlendum vettvangi," sagði Mörður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×