Innlent

Ekki á dagskrá að lýsa Hellisheiði

Ekki er áætlað að lýsa veginn um Hellisheiði á næsta áratug. Þetta kom fram á Alþingi í fyrradag í svari Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Að sögn Sturlu var gerð kostnaðaráætlun á grundvelli forhönnunar veglýsingar frá Breiðholtsbraut að Hveragerði auk lýsingar á Þrengslavegi í desember 2001. "Áætlaður kostnaður var 360 milljónir króna fyrir veglýsingu meðfram hringveginum frá Breiðholtsbraut að Hveragerði og um 150 milljónir fyrir Þrengslaveg, að verðlagi desember 2001," sagði Sturla. Nú í febrúar eru að hefjast framkvæmdir við breikkun vegarins við Litlu kaffistofuna, sem áætlað er að kosti um 400 milljónir. Í samgönguáætlun fyrir árin 2003 til 2014 er gert ráð fyrir 100 milljóna króna fjárveitingu á tímabilinu 2007 til 2010 og 500 milljónum króna á tímabilinu 2011 til 2014 sem verja á til breikkunar og endurbóta á veginum um Hellisheiði, að sögn Sturlu. "Ekki hefur verið gert ráð fyrir fjármunum til lýsingar á þessari leið í samgönguáætlun," sagði hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×