Innlent

Frumvarp til að leyfa enska þuli

Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að ráðherrum undanskildum hafa lagt fram frumvarp á Alþingi sem gerir það að verkum að hægt verður að sýna frá íþróttaviðburðum án þess að nota íslenska þuli eða þýðingartexta. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins neitar því að flokkurinn sé að rétta Skjá einum hjálparhönd. Í síðustu viku úrskurðaði útvarpsrétttarnefnd að Skjá einum væri óheimilt að nota enska þuli til að lýsa enskum fótboltaleikjum. Í dag, fimm dögum síðar, hefur allur þingflokkur Sjálfstæðisflokks, að ráðherrum undanskildum, sameinast um lagafrumvarp sem leysir Skjá einn undan þessari kvöð. Þingmennirnir leggja til að íþróttaviðburðir í beinni útsendingu þurfi ekki íslenskan texta eða tal en áður var sú undantekning í lögum einskorðuð við fréttir eða fréttatengt efni. Sigurður Kári Kristjánsson, einn umræddra þingmanna, segist telja núverandi löggjöf óeðlilega og mismuna þeim sem starfi á þessum markaði því aðrir fjölmiðlar, og fjarskiptafyrirtæki eins og Síminn, séu að senda út efni með erlendu tali án allrar textunar eða lýsingar allan sólarhringinn. Sigurður segir að meginreglan verði áfram sú að erlent efni verði áfram textað eða talsett og hann telur þetta ekki vega að íslenskri tungu. Hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé með þessu að bregðast við neikvæðum viðbrögðum við úrskurði útvarpsréttarnefndar í síðustu viku. Aðspurður segist Sigurður ekki vera að kasta björgunarhring til Skjás eins. Hann hafi t.a.m. verið flutningsmaður að máli sem lýtur að því að leyfa sölu á víni og bjór í matvöruverslunum og spyr því hvort hann sé þá að ganga erinda Baugs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×