Innlent

Átök innan Framsóknar halda áfram

Átök innan Framsóknarflokksins halda áfram, enda aðeins rúmar þrjár vikur í landsfund flokksins. Gera þurfti hlé á fundi Ungra framsóknarmanna í Kópavogi í gærkvöldi eftir að deilur spruttu upp vegna fjörutíu nýskráninga í félagið fyrir fundinn. Sitjandi stjórn vildi ekki samþykkja nýskráningarnar og uppi varð fótur og fit. Eftir nokkurt þóf mættu þeir Páll Magnússon varaþingmaður og Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi og formaður Félags framsóknarmanna í Kópavogi, á staðinn. Þeir áttu síðan fund með Einari Kristjáni Jónssyni, formanni félags Ungra framsóknarmanna í bæjarfélaginu, fyrir luktum dyrum. Ómar segir að sátt hafi náðst eftir fund þremenninganna og að aldrei hafi staðið til að fella sitjandi formann. Ómar segist að öðru leyti ekkert ætla að tjá sig fram að fundi Félags framsóknarmanna í Kópavogi sem haldinn verður á morgun. Nú eru aðeins rúmar þrjár vikur í landsfund flokksins. Þar fær hvert aðildarfélag innan Framsóknarflokksins einn fulltrúa fyrir hverja fimmtán skráða félaga. Það er því kannski ekki skrýtið að óvenju mikið hafi verið um nýskráningar í félög Framsóknarflokksins undanfarið. Stjórn hvers aðildarfélags ræður ennfremur hvaða fulltrúar fara á þeirra vegum á landsfundinn og það er ekki síst ástæða allra þeirra átaka sem gert hafa vart við sig innan raða flokksins undanfarna daga og vikur.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×