Sport

Æfingabúðir fyrir rusldómara

Viggó Sigurðsson landsliðsþjálfari fékk sitt þriðja gula spjald á HM í gær en hann var afar ósáttur við frammistöðu pólsku dómarana. "Ég spurði eftirlitsmennina að því hvort þetta mót væri æfingabúðir fyrir rusldómara. Við erum með argentínska dómara í Slóvenaleiknum sem voru að dæma sinn fyrsta leik utan Suður-Ameríku. Svo er það þetta dómarapar hér í kvöld. Ég veit ekki hvernig þeir fóru að því að komast inn á alþjóðamót. Þeir eru ekki á nógu háum standard," sagði Viggó en fannst honum erfitt að rífa liðið upp fyrir leikinn? "Það var vissulega erfitt að fara inn í þennan leik eftir Slóvenaleikinn. Svo fer það þannig að við stöndum í vörn megnið af tímanum. Þessi leikur var hálfgerð leikleysa og skylduverkefni að ljúka honum." Strákarnir eiga enn möguleika að komast upp úr riðlinum en til þess að það takist verða þeir að vinna síðustu tvo leikina. "Það verður að klára þessa leiki. Í kvöld vorum við ekki að hugsa um stóran sigur en við mætum einbeittari í næsta tvo leiki og þá ætlum við að klára með sigri. Það er ekki spurning," sagði Viggó Sigurðsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×