Sport

Ætlum að toppa eigin árangur

Keflvíkingar taka á móti Benetton Fribourg Olympic frá Sviss í bikarkeppni Evrópu í körfuknattleik í kvöld. Fyrri leiknum, sem fram fór í Sviss, lyktaði með sigri heimamanna, 103-95, og þarf Keflavík að vinna með 9 stigum eða meira til að tryggja sér áframhaldandi þátttöku í keppninni. Keflvíkingar geta reyndar leyft sér að vinna með 8 stiga mun svo framarlega sem gestirnir skori minna en 95 stig. Falur Harðarson, aðstoðarþjálfari Keflvíkinga, sá um að stýra liðinu í síðasta leik gegn Snæfelli þar sem Sigurður Ingimundarson lá veikur heima. "Siggi kallinn er allur að koma til. Hann fékk þessa landlægu flensu en verður risinn úr rekkju í kvöld," sagði Falur. Að sögn Fals leika liðin tvö mjög áþekkan körfubolta. "Fribourg býr yfir góðum skyttum fyrir utan og er með mjög góðan Bandaríkjamann. Leikmenn liðsins eru aðeins stærri í flestum stöðum en þetta eru mjög svipuð lið." Tveir leikmenn Keflavíkur, Magnús Þór Gunnarsson og Anthony Glover, skoruðu aðeins 5 stig samanlegt gegn Snæfelli í síðasta leik en sá síðarnefndi fór hamförum gegn Fribourg í fyrri leiknum og skoraði þá 44 stig og reif niður 12 fráköst. Falur sagðist ekki hafa miklar áhyggjur af köflóttu gengi einstakra leikmanna. "Menn hljóta að gíra sig upp fyrir þennan mikilvæga leik á morgun því ef við vinnum þá toppum við eigin árangur frá síðustu keppni." Falur fullyrti að Keflavík hefði ekki leikið nógu skynsamlega í fyrri leiknum gegn Fribourg. "Við vorum fljótir á okkur í sókninni og spiluðum vörnina ekki nógu vel. Við erum búnir að spila einn leik síðan, gegn Snæfelli á mánudaginn, þar sem vörnin var mjög góð en sóknin lakari. Ef við tökum seinni hálfleikinn úr þeim leik í kvöld, þá getum við ekki annað en verið bjartsýnir, " sagði Falur Harðarson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×