Innlent

Rannsaka erfðir á alkahólisma

Íslensk erfðagreining og SÁÁ hafa fengið 330 miljóna króna styrk frá Evrópusambandinu til rannsókna á erfðafræði áfengissýki og fíknar. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir SÁÁ, undirrituðu samning um samstarf  höfuðstöðvum ÍE í gær. "Markmiðið er að reyna að finna hvernig erfðir leggja af mörkum til áhættunnar á því að verða alkahólisti eða fíkill," sagði Kári Stefánsson. "Reyna að einangra erfðavísi sem leggur af mörkum til alkahólisma eða annarrar fíknar. Síðan er vonin sú, að sú þekking sem kom út úr því megi nýta til að setja saman nýjar aðferðir til að lækna og fyrirbyggja. Fólk hefur látið sig dreyma um að hægt sé að setja saman lyf sem hjálpi fólki til að takast á við alkahólisma og aðra fíkn. Staðreyndin er hins vegar sú, að þó svo að það sé erfðaþáttur í áhættunni, þá erfa menn aldrei annað en tilhneiginguna til að fá sjúkdóminn. Sú staðreynd að menn erfa tilhneigingu tekur ekki af þeim ábyrgðina á því sem þeir gera. Hún er eftir sem áður á herðum hvers einstaklings fyrir sig." Samningurinn er liður í viðamiklu evrópsku samstarfsverkefni átta rannsóknastofa um rannsóknir á líffræðilegum orsökum fíknar. Verkefnið hefur hlotið 8,1 miljóna evra styrk frá ESB. Helmingur styrksins, eða um 330 miljónir króna, er ætlaður til rannsókna á sviði mannerfðafræði sem ÍE mun annast. SÁÁ mun sjá um klínískan hluta rannsóknanna. Þetta er stærsti styrkur sem ESB hefur veitt til íslensks rannsóknaverkefnis. Þórarinn Tyrfingsson kvaðst gera ráð fyrir að 2 - 300 áfengissjúklingar tækju þátt í rannsókninni, svo og aðstandendur þeirra. Hitt lægi fyrir að enginn tæki þátt í slíkri rannsókn nema að skriflegt samþykki viðkomandi lægi fyrir áður. Næsta skref verður að rannsóknaraðilar munu senda inn umsókn til vísindasiðanefndar og Persónuverndar. Þá verður hafin útsending bréfa til fólk vegna þátttöku á næstu vikum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×