Innlent

Rúmlega 100 manns rýmdu hús sín

Lokið er rýmingu húsa sem ákveðnar hafa verið á Vestfjörðum. Alls hafa 103 íbúar í 37 húsum þurft að yfirgefa heimili sín í dag vegna snjóflóðahættu.  49 á Patreksfirði, 23 á Ísafirði, Hnífsdal og í dreifbýli Ísafjarðarbæjar og 31 á Bolungarvík og tveimur bæjum þar við.  Í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjórans segir að grannt verði fylgst með þróun mála í kvöld og nótt. Samkvæmt upplýsingum Þórólfs Halldórssonar,sýslumanns á Patreksfirði og formanns almannavarnanefndar bæjarins, voru fjórtán hús í rýmingarreit A við Hóla, Mýrar og Urðargötu á Patreksfirði rýmd í kvöld, eftir að Veðurstofa Íslands gaf út tilkynningu um hættustig vegna snjóflóðahættu. Rýmingu var lokið uppúr kl. 21:00 og gekk hún snurðulaust. Alls þurftu 49 íbúar að yfirgefa heimili sín og fóru allir til vina og vandamanna annars staðar í bænum. Vakt verður hjá lögreglu og snjóeftirliti á Patreksfirði í alla nótt og áfram meðan þörf krefur. Snjómokstur á götum bæjarins mun hefjast kl. 05:00 í fyrramálið og er vonast til að atvinnulíf og skólahald í bænum geti orðið með sem eðlilegustum hætti á morgun. Almannavarnanefnd Patreksfjarðar mun koma saman á ný kl. 07:00 í fyrramálið og meta stöðuna að nýju.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×