Innlent

Ríkið sýknað af 11 milljóna kröfu

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í morgun íslenska ríkið af rúmlega ellefu milljóna króna skaðabótakröfu erfingja konu sem svipt var fjárræði. Konan lést árið 2000 en sýslumaður skipaði henni lögráðamann fyrir tólf árum sem hafði dregið sér hluta af fé hennar. Erfingjar konunnar töldu ríkið skaðabótaskylt vegna tjóns sem rakið var til fjárdráttarins en fjármunina hafi vantað í dánarbúið vegna þess að því hafi verið skipt. Lögráðamaðurinn var dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir að hafa dregið sér tæplega átta milljónir af fé konunnar á árunum 1993 til 2000. Héraðsdómur féllst ekki á að Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi skipað lögráðamann sem óheimilt hafi verið að skipa samkvæmt umræddu lagaákvæði og beri þannig ábyrgð á gerðum hans, enda séu hvorki í lögum fyrirmæli um slíka ábyrgð né þyki vera rök fyrir því að telja hana vera fyrir hendi. Þá segir Héraðsdómur að hin meinta vanræksla sýslumanns þegar hann skipaði lögráðamanninn sé ekki talin standa í nægum tengslum við fjárdrátt lögráðamannsins þannig að tjónið verði talið sennileg afleiðing af hinni ófullnægjandi athugun sýslumannsins á því hvort lögráðamaðurinn væri ráðvandur og ráðdeildarsamur og uppfyllti þar með skilyrði lagaákvæðisins. Bótaábyrgð ríksins á tjóni stefnenda sé því ekki talin vera fyrir hendi samkvæmt almennri sakarreglu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×