Innlent

Sýkta svæðið enn ógirt

Eigendur eyðibýlisins Sjónarhóls á Vatnsleysuströnd hafa lagst gegn því að miltisbrandssýkta svæðið á jörð þeirra verði girt af, að sögn Gunnars Arnar Guðmundsonar héraðsdýralæknis. Unnið hefur verið að því að ná samkomulagi í málinu, enda talið brýnt að loka svæðinu þannig að skepnur komist ekki inn á það. Það var í byrjun desember sem þrjú hross drápust af miltisbrandi á Sjónarhóli. Hinu fjórða var lógað skömmu síðar. Óánægja er meðal skepnueigenda á svæðinu, sem átelja seinagang í girðingarmálinu. Þeir lýsa því svo að hlið að sýkta túninu sé galopið, girðingar liggi niðri að einhverju leyti og gulir lögregluborðar flögri fyrir vindinum. "Forkastanlegt," sagði Hafsteinn Snæland íbúi í Vogum um stöðuna. "Við höfum verið í viðræðum við landeigendur um þessar girðingar og það hefur ekki enn komist á samkomulag varðandi þær," sagði Gunnar Örn. "Við viljum girða af þetta svæði sem hestarnir voru sannanlega á. Þeir voru innan rafmagnsgirðingar. Hún gekk að hluta til yfir tjörn sem þarna er. Við viljum girða þessa rafmagnsgirðingu af, svo og tjörnina alla. Eins og maður hefur vissan skilning á, eru landeigendur ekki ánægðir með að fá girðingu þarna inn á mitt svæðið. En það hefur verið tekin ákvörðun um að láta ekki líða lengra heldur en viku héðan í frá. Þá verður gengið í þetta. " Gunnar Örn sagði, að búið væri að ráða verðtaka í girðingavinnuna, sem hefði átt að hefjast rétt fyrir jólin. En það hefði þá strandað á landeigendum. Landbúnaðarráðuneytið myndi kosta girðinguna og uppsetningu hennar. "Það er í rauninni stjórnvaldsskipum að þetta verði gert. Við ætluðum að reyna, ef hægt væri, að gera þetta í sátt við landeigendur," sagði Gunnar Örn sem kvaðst hafa trú á að það tækist "Við teljum ekki að þarna sé hætta fyrir fólk," sagði hann enn fremur og bætti við að svæðið gæti fyrst og fremst reynst hættulegt fyrir grasbíta.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×