Innlent

Enn hættuástand í Bolungarvík

Almannavarnarnefnd Bolungarvíkur tók ákvörðun í samráði við Veðurstofu Íslands, seinni partinn í gær, um að afturkalla ekki hættustig þar í bæ. Á sama tíma var ákveðið að aflétta hættuástandi í Ísafjarðarbæ og fengu 46 manns á Ísafirði, Hnífsdal, Önundarfirði og Dýrafirði að fara til síns heima. Einar Pétursson, bæjarstjóri í Bolungarvík og formaður almannavarnarnefndar þar í bæ, segir ótraust snjóalög og éljagang ekki gefa tilefni til að aflétta hættuástandinu. Niðurstaðan í gær var ekki eins og vonir stóðu til en Einar segir ekki hægt að taka neina áhættu. Enn þurfa því 26 hús að vera tóm í Bolungarvík og því komust 92 bæjarbúar ekki heim til sín í gær. Hættuástandið verður endurmetið í hádeginu í dag. Hluti byggðarinnar í norðanverðum Hnífsdal var keyptur upp eftir snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri árið 1995. Bráðabirgðahættumat sem gert var árið 1996 sagði nokkur einbýlishús vera á hættusvæði. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir þau hús hafa verið keypt af einstaklingum og endurseld sem sumarhús sem aðeins má nota sex mánuði á ári, sum hafi þó verið keypt og flutt annað. "Endanlegt hættumat kom síðan á síðasta ári og þar kom fram að blokk, raðhús og tvö einbýlishús við Árvelli og íbúðarhúsið að Hrauni væru líka á hættusvæði," segir Halldór en á þessa staði féll flóðið á þriðjudag. Ákvörðun um að kaupa upp þessi hús var tekin í beinu framhaldinu af endanlegu hættumati því það þótti hagstæðara en að byggja varnargarða. Halldór segir annað einbýlishúsið þegar hafa verið keypt en lengra hafi bæjarfélagið og ofanflóðasjóður ekki verið kominn í ferlinu sem átti að halda áfram næstu mánuði. Halldór segist ekki vita á þessari stundu hvort þau hús sem flóðið féll á þriðjudag verði keypt strax í framhaldinu eða hvort einhver bið verði þar á. Eftir sé að meta skemmdirnar og koma þurfi rafmagni aftur á svæðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×