Innlent

Hús rýmd vegna snjóflóðahættu

Stórt snjóflóð sem talið er hafa verið allt að 150 metra breitt féll á Skutulsfjarðarbraut, aðalgötu Ísafjarðarbæjar, síðdegis í gær. Flóðið eyðilagði ljósastaur og lenti á snjóruðningstæki en ökumaðurinn þess slapp. Þrjú önnur snjóflóð féllu á Vestfjörðum. Eitt þeirra féll á snjóflóðavarnargarð við sorpeyðingarstöðina Funa í Engidal, annað á Hnífsdalsveg og hið þriðja féll við hesthúsahverfið í Hnífsdal. Hús hafa verið rýmd og hafa um 160 manns yfirgefið heimili sín á Ísafirði, Bolungarvík, Hnífsdal, Dýrafirði, Önundarfirði, Patreksfirði og Tálknafirði. Sólarhringsvakt er á Veðurstofunni vegna hættunnar. Hún taldi ekki tímabært að hleypa fólkinu heim í gærkvöld en aðstæður verða endurskoðaðar í dag. Á miðnætti var umferð um aðalgötuna lokað, samkvæmt upplýsingum almannavarnarnefndar bæjarins. Nefndin ráðleggur fólki að vera ekki á ferli. Um 60 björgunarsveitarmenn frá 11 björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru að störfum víða um land í gær. Hjálparsveit skáta í Hveragerði var á ferðinni á Hellisheiði til aðstoðar við bílstjóra sem áttu í vandræðum vegna veðurs og ófærðar. Björgunarsveitir í Húnavatnssýslu hafa verið að störfum frá því um miðjan dag vegna veðurs og ófærðar ásamt því að aðstoða við sjúkraflutning. Segja má að allar björgunarsveitir á Vestfjörðum hafi verið að störfum í dag vegna mikillar ófærðar og óveðurs. Hjörleifur Ólafsson hjá Vegagerðinni segir blindbyl og gríðarlegt fannfergi á Vestfjörðum. Vegir séu nær allir ófærir. Stefnt verði að mokstri en ólíklegt sé að af því verði eins og spáin sé. Veðurstofan spáir ofankomu á Ísafirði fram á fimmtudag.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×