Fastir pennar

Þjóðlendur og ríkið

Kröfur fjármálaráðherra til óbyggðanefndar hvað varðar þjóðlendur á Norðausturlandi hafa vakið töluverð viðbrögð vegna þess hve víðtækar kröfurnar eru, þegar mið er tekið af úrskurði Hæstaréttar fyrir nokkrum vikum um þjóðlendur á Suðurlandi. Margir hafa talið að með dómi Hæstaréttar hafi stefnan verið mörkuð í þessum málum, en ríkið virðist ekki telja að svo sé, ef marka má kröfurnar varðandi Norðausturland sem settar voru fram fyrir helgi. Þetta er fyrsta krafa ríkisins sem kemur fram eftir dóminn, og þessvegna biðu margir eftir því hvað ríki myndi gera. Í lögum um þjóðlendur eru þær skilgreindar sem "landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi", svo vitnað sé beint í lögin. Eignarland er hins vegar "landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma", segir ennfremur. Óbyggðanefnd hefur starfað frá því árið 1998. Nefndin er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem hefur það hlutverk að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda. Þá á nefndin að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Einnig hefur óbyggðanefnd ákveðin verkefni með höndum við að skipta landinu í sveitarfélög. Þjóðlendulög veita ekki heimild til að svipa menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum. Lögin lýsa íslenska ríkið einvörðungu eiganda landsvæða utan eignarlanda og þeirra réttinda á þessum svæðum sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Vandinn er hinsvegar að skilgreina hvar mörkin liggja á milli eignarlanda og þjóðlendna og það er verkefni óbyggðanefndar að greina þar á milli. Nefndin á að taka tillit til bæði krafna ríkisins og annarra sem hagsmuna eiga að gæta á viðkomandi landsvæðum. Landeigendur á því svæði á Norðausturlandi sem óbyggðanefnd hefur nú tekið fyrir hafa þrjá mánuði til að lýsa kröfum sínum fyrir henni. Oddviti Öxarfjarðarhrepps segir í viðtali við Fréttablaðið að krafa ríkisins hafi komið sér á óvart í ljósi hæstaréttardómsins í haust. Hann bendir á að það séu landeigendur á svæðinu sem þurfi að halda uppi vörnum í málinu, en ekki sveitarfélagið, en það muni veita þeim alla þá aðstoð sem hægt sé. Jarðeigendur á Jökuldal og í Öxarfirði hafa lýst furðu sinni vegna krafna ríkisins. Jörðin Brú í Jökuldal er ein stærsta jörð landsins, talin vera að flatarmáli álíka og Færeyjar. Eigandi hennar segist ekki hafa átt á von á þessu af hendi ríkisins og þá sérstaklega ekki vegna þess að ríkið hafi óskað eftir því að hluti af jörðinni verði friðland, og hafi hann veitt leyfi til þess. Þá segir eigandi Hafrafellstungu I í Öxarfirði að til séu gömul skjöl sem sýni greinilega landamerki jarðarinnar, og þrátt fyrir það geri ríkið kröfu um heiðarlönd, sem séu innan þeirra marka.





×