Innlent

Eggjakaup af konum á gráu svæði

Ekkert í lögum bannar að egg til tæknifrjóvgunar séu keypt af konum, eins og fyrirhugað er að gera hér á landi. Hins vegar segir Sigurður Guðmundsson landlæknir það afar umdeilanlegt. Það er einkarekna tæknifrjóvgunarfyrirtækið Art Medica sem ákveðið hefur að bjóða konum greiðslu fyrir egg þar sem skortur er á þeim. "Það er ekki bannað í lögum um tæknifrjóvgun að taka gjald fyrir svona nokkuð," sagði landlæknir. "Hins vegar er mjög óvenjulegt að við, í þessu umhverfi sem við hrærumst í á Íslandi, greiðum fyrir gjafir á lífsýnum af þessu tagi. Það er að vísu ekki heldur bannað í lögum um lífsýni, sem taka til lífsýna og lífsýnabanka, að greiða gjafa fyrir sýnið. Hins vegar má bankinn sjálfur einungis rukka gjald til að standa undir kostnaði við öflun og umönnun sýnisins, en ekkert umfram það." Landlæknir benti á að ekki væri greitt fyrir blóðgjafir hér á landi, jafnvel þótt það væri ekki beinlínis bannað með lögum. "Mér finnst persónulega að það sé umhugsunarefni og afar umdeilanlegt mál að kaupa egg í þessu skyni, þar sem við greiðslum ekki fyrir blóðgjafir og munum vonandi aldrei gera." Landlæknir kvaðst telja sjálfsagt að greiða gjöfurum fyrir vinnutap, óþægindi og kostnað sem af því hlytist að gefa egg. En hvað varðaði beinar greiðslur bæri að fara varlega í ljósi þess samfélags sem menn byggju í. Hann benti enn fremur á að heilbrigt fólk tæki þátt í vísindarannsóknum sem sjálfboðaliðar. Í slíkum tilvikum hefðu rannsóknarmenn stundum greitt þátttakendum. Þær greiðslur ættu að koma gegn kostnaði, tíma og fleiru af því tagi. Ef sjúklingar tækju þátt í slíkri rannsókn væri ekki greitt fyrir það. Þetta væri vinnuvenjan hér á landi. "Á sama hátt myndi ég vilja sjá eggjagjöfum fyrir komið. Sé greitt fyrir þær sé það til að koma til móts við kostnað, vinnutap ef eitthvað er, en ekki sem umbun til þess að fjölga eggjagjöfum. Það finnst mér vera á mjög gráu svæði," sagði landlæknir sem kvaðs embættið myndu ræða málið á almennum nótum við fyrirtækið.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×