Skoðun

Skynsemi vs. jól

Jólakötturinn skrifar
Góðir lesendur!

Þegar sólin lækkar á lofti og kólnar í veðri er augljóst hvað öllum spendýrum er best og skynsamlegast að gera. Og það er að sofa. Sofa og kúra sig niður í heitt teppi, stinga nefinu öðru hverju út í loftið til að athuga hvort nokkuð er að frétta og halda áfram að sofa. Vakna tvisvar á dag og borða, snyrta sig aðeins og fara svo aftur að sofa. Á þessum árstíma er þetta hið fullkomna samspil spendýrs og náttúru.

Nema hvað eitt spendýr er alveg að fara yfirum af einhverju sem það kallar "jól". Ég veit alveg hvað jól eru, þá er kalt, þá er dimmt og þá er nauðsynlegt að sofa óvenju fast og lengi. Og þá fer tegundin "fólk" algerlega yfir um. Þeytist eins og hauslausar mýs um allan bæ í ýmsum óljósum tilgangi, þrífur allt heimilið (eins og það sjái einhver mun í myrkrinu), leggur sig í lífshættu við að príla upp á þak til að hengja þar ljós (það skortir því miður allan þokka og jafnvægisskynið er beinlínis sorglegt), líma saman á sér loppurnar við jólakortagerð og skamma hvert annað hástöfum.

Ég skil ekki fólk!

Það má sko eiga sína greind og afturloppulabb fyrir mér. Ég ætla að halda áfram minni skynsamlegu iðju sem er að sofa.

Hvíla mig.

Safna kröftum.

Og mala af hlátri yfir allri vitleysunni í "fólki"!




Skoðun

Sjá meira


×