Innlent

Alþingi greiði manni 3,2 milljónir

Alþingi var í dag dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag til að greiða manni 3,2 milljónir króna í skaðabætur vegna slyss sem hann varð fyrir í júlí árið 2001 í bílageymslu í kjallara nýbyggingar þjónustuskála Alþingis. Maðurinn stefndi bæði Alþingi og Ólafi og Gunnari - byggingarfélagi, sem byggði bílageymsluna, vegna ágreinings um bótaskyldu en Héraðsdómur sýknaði byggingarfélagið af kröfum. Maðurinn starfaði fyrir Ísloft á þessum tíma og hafði farið ásamt forsvarsmönnum tveggja fyrirtækja inn í bílageymslubygginguna til að skoða aðstæður. Á svokölluðu tækjasvæði á staðnum féll hann niður um óvarið op og ofan í gryfju sem var tveggja metra djúp og nokkrir metrar að lengd. Við fallið fékk hanm höfuðhögg og lenti illa á vinstri fæti, hægri öxl og bringu, auk þess sem hann fór á kaf í vatn í gryfjunni. Maðurinn var fluttur með sjúkrabifreð á slysadeild og þurfti vegna slyssins ítrekað að koma á slysadeild og göngudeild á árinu 2001. Héraðsdómur taldi að Alþingi bæri, sem umráðaaðili byggingarinnar, ábyrgð á því að öryggisvarnir væru ekki til staðar þegar slysið varð. Öryggisráðstafanir hefðu ekki verið í samræmi við reglur um frágang við ófullgerð hús og gryfjan á tækjasvæðinu, sem maðurinn féll í, hefði verið stórhættuleg slysagildra. Maðurinn gerði kröfu um rúmlega sjö milljónir króna í skaðabætur en Héraðsdómur taldi rétt að skipta sök til helminga þar sem hann hefði ekki aflað sérstakrar heimildar fyrir skoðunarferðina í bygginguna. Alþingi var ennfremur gert að greiða 650 þúsund krónur í málskostnað.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×