Erlent

Hefur farið vel fram að mestu

Kjördagur hefur að mestu liðið tíðindalaust hjá ef undan er skilin óvenju mikil kjörsókn. Í aðdraganda kosninganna lýstu margir áhyggjum af því að mistök í framkvæmd og framganga eftirlitsmanna frambjóðendanna á kjörstöðum kynni að hafa áhrif en enn sem komið er hefur verið lítið um það. Eitthvað hefur þó verið um að kosningabúnaður bilaði en þess utan hefur helsta vandamálið verið langar biðraðir þar sem kjósendur hafa þurft að bíða löngum stundum, í mörgum tilfellum svo klukkutímum skipti, eftir því að kjósa. Kjörstað í Mount Laurel í New Jersey var lokað í tvo klukkutíma eftir að torkennilegt efni fannst þar. Rannsókn leiddi hins vegar í ljós að ekki var um eiturefni að ræða heldur salt. Kjósendur í Ohio sem óskuðu eftir að fá kjörseðil heim til að kjósa utan kjörfundar en fengu kjörseðilinn ekki þurftu að fara fyrir dómstóla til að fá að kjósa á kjörstað, með sérstökum atkvæðaseðlum sem verða teknir til hliðar og taldir síðar. Dómari í Toledo fjallaði um málið og ákvað að verða við ósk kjósendanna. Til átaka kom á sumum stöðum. Tveir stuðningsmenn George W. Bush höfðuðu skaðabótamál á hendur demókrötum sem þeir sökuðu um að hafa lamið sig, ýtt og spýtt á sig. Í Cleveland í Ohio sagði embættismönnum úr röðum demókrata að sér hefði verið hent út úr kjallara kirkju af öskrandi kosningastarfsmanni en að annar hefði hleypt sér inn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×