Fastir pennar

Vond skoðanafesta

Skoðanir þola yfirleitt illa löng ferðalög. Ef menn ferðast um heiminn með því hugarfari að hnýsast sem mest í skoðanir heimamanna á hverjum stað verður þeim fljótt ljóst að skoðanir eru sérlega staðbundin fyrirbæri. Hafi menn gert þetta um hríð sjá þeir líka að jafnvel í hinum íhaldssamari samfélögum eru skoðanir óstöðugar og bundnar við tíma. Það sem er viðtekinn sannleikur á einum stað og á einum tíma þykir mesti misskilningur eða jafnvel undarlegheit þegar fjær dregur í rúmi eða tíma. Það er helst innan Evrópu að almennar skoðanir um lífið, tilveruna og æskilega skikkan mannfélagsins nái yfir landamæri en jafnvel í okkar litlu álfu finna menn auðveldlega verulegan mun á skoðunum fólks á milli landa. Ekkert evrópskt samfélag er heldur svo íhaldssamt að skoðanir manna þar hafi ekki umturnast á tiltölulega stuttum tíma. Hafi menn þetta í huga verður dálítið einkennilegt hvað víða þykir fínt að menn komi sér upp einni skoðun til lífstíðar og eyði ævinni í að verja hana hvað sem á dynur og hvers sem menn kunna annars að verða vísari á lífsleiðinni. Svo dæmi sé tekið er erfiðasta mál Kerrys í kosningabaráttunni vestra að hann hefur ítrekað orðið uppvís að því að hafa skipt um skoðun. Hann fór sem ungur hermaður til Víetnam og eftir að horfa á tilgangslaust blóðbað sem kostaði milljónir Víetnama lífið skipti hann um skoðun á stríðinu. Kosningabaráttan væri honum auðveldari ef stríð á fölskum forsendum og fjöldamorð á saklausu fólki hefði ekki fengið hann til að efast um utanríkisstefnu lands síns fyrir þrjátíu árum síðan. Í sumum samfélögum þykir það raunar skýrt merki um heimsku að efast lítið um skoðanir sínar og halda í þær eins og ættargripi. Þar er viðurkennt að skoðanir eru ekki veruleikinn sjálfur heldur aðeins ein tiltekin hlið hans og oftast sú hlið sem hentugast er fyrir viðkomandi að einblína á. Í einu slíku samfélagi austur í heimi sagði mér eitt sinn maður að það væru fjórir hópar af fólki sem þyrftu á þeirri sannfæringu að halda að skoðanir þeirra væru raunverulegar og réttar myndir af veruleikanum, nefnilega þeir ungu, þeir heimsku, þeir hræddu og þeir gráðugu. Þeir ungu ráða ekki við flókinn veruleika, sagði maðurinn, og verða að trúa því að þeirra eigin mynd af honum sé rétt. Þeir heimsku, sagði hann, skilja ekki veruleikann en geta skilið einfalda skoðun á honum. Þeir hræddu, sagði hann, finna fótfestu og öryggi í skoðunum. Svo eru það þeir gráðugu, bætti hann við, þeir þurfa skoðanir til að réttlæta áfergju sína með einhverju sem hljómar háleitara en græðgi. Á Íslandi hafa menn jafnan borið svo djúpa virðingu fyrir sínum eigin skoðunum að lokaður hugmyndaheimur og einbeitt þrjóska hefur verið álitin aðall hins sanna manns. Lifandi og einlæg leit að hinu sanna hefur hins vegar verið flokkuð undir vingulshátt og jafnvel tvöfeldni. Sá sem skiptir um skoðun er því yfirleitt tortryggður rétt eins og annarlegir hagsmunir frekar en aukinn þroski, viska eða lærdómur liggi að baki nýrri skoðun. Þetta er hins vegar að breytast. Íslenskur veruleiki breytist það hratt að skoðanir á honum úreldast ört. Virðing fyrir staðfestu í skoðunum hefur að sama skapi farið minnkandi. Þótt einfaldari menn úr hópi stjórnmálamanna skemmti sér enn við þá gömlu íslensku aðferð að núa mönnum því um nasir að þeir hafi einhvern tíma fyrir löngu haft aðra skoðun á sama máli, hljómar slík umræða kjánaleg fyrir flest fólk. Um leið fara fordómar minnkandi, bæði gagnvart fólki sem lítur öðru vísi út en flestir íslendingar, og þeim sem kjósa sér annan lífsstíl en þann sem menn álitu áður vera þann rétta að mati guðs almáttugs. Það er allt í senn orsök, afleiðing og einkenni framfara að menn skipta um skoðun. Virðing fyrir þrjóskulegri skoðanafestu er merki um stöðnun, lokun og fordóma. Útbreitt dekur við einföld og altæk hugmyndakerfi er merki um veikleika og jafnvel sjúkleika í samfélagi. Eitt gleggsta merki um heilbrigði og örar framfarir í íslenskum samtíma er að fleiri en áður eru tilbúnir að endurmeta gamlar skoðanir.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×